Á Vísi segir:
Strákarnir í IceGuys komast í hann krappann í annarri seríu í samnefndum þáttum þegar þeir eru dæmdir til samfélagsþjónustu eftir dularfullt hvarfs Arons Can. Fyrsta stiklan úr seríunni er frumsýnd á Vísi.
Endurkoma sjónvarpsþáttanna var tilkynnt um síðustu áramót en von er á IceGuys 2 í Sjónvarp Símans í lok nóvember. Fyrsti þáttur fer í loftið 24. nóvember. Lög sveitarinnar hafa hljómað í eyrum landsmanna seinustu misseri en ný plata sveitarinnar, 1918, hefur notið mikilla vinsælda frá útgáfu hennar fyrr í þessum mánuði. Sjónvarpsþættirnir voru svo vinsælir að tökur á þriðju seríunni eru þegar hafnar.
Fyrsta þáttaröðin endaði með dramatískum hætti þar sem Aron Can stakk af með alla peninga sveitarinnar og hinir meðlimir sveitarinnar sátu eftir með sárt ennið og vissu ekkert hvað varð um vin þeirra, Aron Can. Hvar er Aron? Hvar eru peningarnir? Hvað gera strákarnir núna?
Þættirnir eru sem fyrr í leikstjórn Allans Sigurðssonar, Hannesar Þór Arasonar og Hannesar Þórs Halldórssonar, en fyrirtækið Atlavík sem er í eigu leikstjórana fer með framleiðsluna á þáttunum. Handritshöfundur þáttanna er svo enginn annar en Sóli Hólm.