Friðrik Erlingsson ráðinn kvikmyndaráðgjafi

Friðrik Erlingsson, skáld og handritshöfundur, hefur verið ráðinn sem kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Friðrik hefur mikla reynslu af handritagerð fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Hann hefur kennt handritaskrif við Kvikmyndaskóla Íslands og handritafræði við Kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands 2022-2024 og hefur verið sjálfstæður handritaráðgjafi.

Á dögunum tóku einnig til starfa á skrifstofu Kvikmyndamiðstöðvar tveir nýir starfsmenn, þær Brynhildur Birgisdóttir og Sigrún Gígja Hrafnsdóttir. Sigrún Gígja var ráðin í stöðu þjónustufulltrúa og Brynhildur í stöðu sérfræðings í framleiðslu.

Brynhildur er með MA-gráðu í kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu frá Royal Holloway, University of London, og BA-gráðu í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún starfaði sem yfirmaður framleiðsludeildar Pegasus árin 2007-2023 þar sem hún hafði meðal annars yfirumsjón með tökum á erlendum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum á Íslandi. Áður starfaði hún sem skrifstofustjóri hjá AHC Productions í London.

Sigrún Gígja er með BA-gráðu í ensku og Cand.mag-gráðu í ensku og þýðingarfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Sigrún Gígja starfaði sem bókari og fulltrúi hjá íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Þar áður starfaði hún um árabil sem fulltrúi hjá norska sendiráðinu á Íslandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR