Af vef Nordic Film and TV News:
Þú sagðir mér að á Íslandi þénaði Snerting meira en Dune 2. Af hverju heldurðu að íslenskir áhorfendur hafi brugðist svona við?
Flestar íslenskar kvikmyndir fjalla um bændur og húsdýr. Það er skrítið, vegna þess að við búum öll í borgum, en nei – kvikmyndir okkar eru alltaf um þessa „gömlu lífshætti“ [hlátur]. Ég hef ekkert á móti því en við erum hægt og rólega að breytast í túristasýningu. Ég var einu sinni kallaður stærsti óvinur íslensks túrisma, bara vegna þess að ég gerði Mýrina. En Trainspotting skaðaði ekki Edinborg – þvert á móti. Það er fleira á Íslandi en fossar.
Þegar þú ert að reyna að heilla annað fólk of mikið týnirðu þér sjálfum. Já, þeir eru til sem trúa á álfa, en meirihluti Íslendinga hugsar ekkert um þá. Og enn erum við að kynna þessa rómantísku hugmynd um landið okkar. Snerting gerist ekki einu sinni á Íslandi og fyrir utan fyrstu fimm eða tíu mínúturnar eru önnur tungumál á henni. Ég var stressaður yfir þessu í fyrstu en árangurinn sýnir að fólk er opið fyrir þessu.
Þetta leiðir hugann að því samtali sem stendur yfir þessa dagana: Hvað er „norræn“ kvikmynd eiginlega?
Nákvæmlega – hvað er íslensk kvikmynd? Fyrir marga er það bóndi og hundur. En við höfum þegar notað öll húsdýrin okkar í kvikmyndir. Það er bara kjúklingur og svín eftir.
Bandaríkjamenn takmarka sig ekki á þennan hátt þegar þeir tala um „amerískar“ kvikmyndir, svo hvers vegna gerum við það? Trúverðugleiki er mér mjög mikilvægur, við ættum virkilega að hugsa um hver við erum núna og hvernig samfélagið okkar lítur út. Þessi tími er kominn.
Þetta er að mörgu leyti klassísk kvikmyndagerð. Stór ástarsaga og alvöru melódrama sem spannar áratugi.
Mögulega, en ég held að við förum samt í hringi með þessa hluti. Ég man hvað ég horfði á þegar ég var að alast upp: Mississippi Burning, Witness. Kvikmyndir sem ég man enn eftir því þær fóru með mann á öðruvísi staði. Það er samt ekkert gamaldags við ást. Og samt er svo erfitt að finna ástarsögu þessa dagana sem er þess virði að segja! Snerting snýst þó ekki bara um ást – hún snýst meira um mann sem þarf sárlega að gera upp sín mál. Kristófer veit að eitthvað vantar í líf hans og vill finna það áður en það verður um seinan.
Ég er 58 ára núna, þannig að það hefur auðvitað orðið breyting á mínu sjónarhorni síðan ég gerði 101 Reykjavík [árið 2000]. Þú kemst á þann stað að þú vilt frið, þú vilt sættast við sjálfan þig og samferðafólk þitt í gegnum tíðina. Ég held að margir geti samsamað sig þessari tilfinningu.
Eða kunna þeir kannski að meta hlýjuna í þessar frásögn? Ég veit ekki einu sinni hvaðan hún kemur, því Kristófer byrjar ferð sína í COVID-faraldrinum og hann er algjörlega einn. Þetta hefði getað verið svo sorglegt.
Að ráða Egil Ólafsson í þetta hlutverk er ein ástæða þess að þetta virkar svona. Ég vildi ekki að persónan væri eins og eitthvað vesalings gamalmenni sem ráfaði um heiminn eins og Flækingur Chaplins. Alls ekki – ég vildi mann sem hefði þokka. Þetta sést í því hvernig hann ber sig, hvernig hann klæðir sig. Þetta er kveðja til föður míns og það er eitthvað svo fallegt við það. Mig langaði líka að bæta smá húmor við ferð hans. Ekki of mikið, þetta er ekki gamanmynd, en snýst frekar um að horfa á glasið hálffullt heldur en hálftómt. Mér líkar við mannkynið, held ég.
Það gæti verið þörf fyrir svona sjónarhorn þessa dagana. Árangur Snertingar í miðasölunni virðist staðfesta það.
Myndir geta verið svo sölulegar að þú þolir þær ekki, eða svo listrænar að enginn nennir að horfa – fyrir utan fjölskyldu þína á einhverri hátíð. Ég myndi gjarnan vilja sameina þessar tvær stefnur oftar. Það er næstum því eins og glæpur að búa til kvikmynd sem fólk vill sjá, en mig langar að undirstrika þetta orð: örlæti. Ef þú býður áhorfendum að fara með þér í ferðalag gætu þeir verið tilbúnir til að gera það.
Mér líkar tilhugsunin um að taka í hönd einhvers. Annars er þetta eins og að bjóða til veislu þar sem þú spilar tónlist sem enginn vill heyra og kvarta síðan yfir því að enginn vildi koma. Eins mikið og mér líkaði við Oppenheimer, þá hugsa ég um Snertingu sem litlu frænku hennar. Þar er fjallað um sömu atburðina á mun hljóðlegri hátt. Ég einbeiti mér ekki að stjórnmálum hér, ég einbeiti mér að afleiðingunum, því í dag erum við að hugsa um að endurtaka sömu hlutina aftur.
Það er áhugavert að sjá þig hljóta tilnefningu til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs aftur, því þú hefur ekki gert kvikmynd eins og Snertingu áður. Þýðir þetta að fólk sé opið fyrir þessari nýju hlið á þér?
Þetta gæti markað nýtt upphaf fyrir mig, vissulega, en þegar ég gerði mína fyrstu mynd var ég kallaður Almodóvar Íslands. Eftir Hafið var ég Bergman Íslands. Síðan náði ég nokkrum árangri í Bandaríkjunum, svo ég varð „Mark Wahlberg gaurinn“ [hlátur]. Fólk hefur reynt að setja mig í box allt mitt líf en ég fylgi bara sögunum sem ég vil segja.
Ég mun líklega halda áfram að gera það sem mér líkar. Ég er þakklátur fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið í gegnum árin – þau gerðu mér kleift að byggja stúdíó á Íslandi til dæmis – en eins og ég sagði höfum við tilhneigingu til að takmarka okkur út frá væntingum annarra. Ég vil ekki gera það. Mér þarf alltaf að finnast þetta ekta – ekta fyrir mig.