spot_img

Lestin um LJÓSBROT: Töfrandi rússíbani tilfinninga

Kolbeinn Rastrick fjallar um Ljósbrot Rúnars Rúnarssonar í Lestinni á Rás 1 og segir hana meðal annars "eitt eftirminnilegasta íslenska kvikmyndaverk síðari ára."

Kolbeinn skrifar:

Ljósbrot er aðeins 77 mínútur en þær mínútur eru nýttar til hins ítrasta. Það sem Rúnari tekst svo einstaklega vel að gera er að búa til strúktúr þar sem að upphaf og endir tala saman og er formið augljóslega útpælt. Allt sem á sér stað í upphafi myndar þjónar tilgangi í seinni hluta hennar og verða þar með lítil augnablik og sjónræn mótíf mun áhrifameiri en þau hefðu ella orðið. Fyrri hlutinn leyfir okkur að kynnast persónunum fyrir áfallið, hvernig þau haga sér, tala við og elska hvort annað.Í seinni hlutanum sjáum við hvernig allt sem við sáum er í fyrri hlutanum er breytt.

Ljósbrot er rússíbani tilfinninga, í tilfelli bæði áhorfenda og persónanna, þar sem að hlátur breytist í grátur og öfugt hvað eftir annað. Þessi skali fangar þó vel þessar ýktu tilfinningar sem fylgja missi. Persónunum er gefið rými til þess að eiga sorgina, gleðina og allt þar á milli og tekst Rúnari og samstarfsfólki hans að láta þessar tilfinningar auka áhrif hverrar annarrar frekar en draga úr þeim. Í kjölfar missisins birtast sorg og gleði sem tvær hliðar ástarinnar.

Titillinn Ljósbrot kjarnar vel meginþema myndarinnar. Eflaust kannast hlustendur við myndina sem prýðir umslag plötunnar Dark Side of the Moon eftir Pink Floyd. Sú mynd er notuð í eðlisfræði til þess að útskýra hvernig hvítt ljós sem fer í gegnum vatn eða gler brotnar og verður t.d. að regnboga. Með sama hætti markar þessi örlagaríki dagur ákveðin tímamót eða ljósbrot í lífi persónanna. Lífið, sem fyrir þeim hefur skýra stefnu og ákveðið form, splundrast og brotnar. Kvikmyndin fangar sérstaklega vel ákveðið sakleysi æskunnar í upphafi sem persónurnar glata í kjölfar þess að missa Didda.

Kvikmyndataka Sophiu Olsson, sem áður hefur skotið fimm af myndum Rúnars er einnig gullfalleg. Hún leikur sér með ljósbrot innan rammans og eru mörg skot þar sem að ljós og birta brotna á persónunum og spegilmyndir þeirra tvístrast í yfirborði glers. Ein af meginreglum kvikmyndalistarinnar, regla sem ekki allir kvikmyndahöfundar eru jafn lunknir í að fylgja, er að sýna en ekki segja. Þótti til dæmis kvikmyndafræðingnum Rudolf Arnheim þetta einkenni vera svo mikilvægt fyrir stöðu kvikmyndalistarinnar að hann boðaði dauða kvikmyndarinnar með komu talmynda. Þegar persónur myndanna gátu bara sagt hvernig þeim leið var engin ástæða til þess að nota rammann til þess að koma merkingu til skila og var því alveg eins hægt að hlusta á útvarpsleikrit. Sem betur fer er kvikmyndalistin sem heillaði Rudolf Arnheim ekki gleymd og grafin og er það þökk sé myndum eins og Ljósbroti sem nýta rammann við að koma merkingu til skila í stað þess að stafa það ofan í bíógestinn.

Í viðtali við Grapevine sagði Rúnar að hann væri mjög hlynntur því klippa út setningar og leyfa þess í stað þögninni og rammanum að tala. Í Ljósbroti fyrir vikið verður hið ósagða oft mun áhrifaríkara á hvíta tjaldinu, tilfinningarnar sem búa að baki er ekki hægt að færa í orð og er því mun sterkara að sleppa því.

Þetta tækist auðvitað ekki nærri því jafnvel og raun ber vitni ef að leikararnir stæðu sig ekki í að koma tilfinningunum til skila. Sem betur fer standa allir leikarar myndarinnar sig prýðisvel og þá sérstaklega Elín Hall í hlutverki Unu og Mikael Kaaber í hlutverki Gunna.

Í myndinni er veruleiki ungs fólks sýndur á svo næman hátt og er augljóst hversu mikla virðingu Rúnar ber fyrir persónum sínum. Í einu atriði setja nemendur Listaháskólans á svið gjörning sem er algjörlega fáránlegur. Það væri auðvelt að hæðast að þessu en í stað þess þá hlæjum við með henni og persónunum. Þær fá á raunsæislegan hátt að vera ungt fólk sem er að uppgötva lífið sem fullorðnir einstaklingar og myndast þar með mikill samhugur á milli áhorfandans og persónanna, þau síðarnefndu eru ekki aðeins viðföng sem við fylgjumst með heldur verða þau vinir okkar. Þessi vinátta milli persónanna verður einnig svo fersk þar sem að áherslan er á hvernig þetta fólk styður hvert við annað. Ást á milli vina er oftast í aftursætinu í kvikmyndum á meðan rómantísk ást fær meginathyglina en Ljósbrot gerir þessa vináttu að meginþema.

Það er einnig vert að hrósa tónlistarvali myndarinnar og þá sérstaklega lagi Jóhanns Jóhannsonar, Odi et amo, sem heyrist í upphafi og undir lok myndarinnar. Þetta lag kallast að einhverju leyti á við tónlist Stanley Kubrick myndarinnar A Clockwork Orange. Þrátt fyrir að sú mynd sé ólík Ljósbroti að innihaldi þá fjalla báðar um ungt fólk sem er að takast á við skilin milli gamla og nýja heimsins. Í A Clockwork Orange eru vandræðaunglingar nýrra tíma í uppreisn gegn kynslóðunum sem á undan komu en í Ljósbroti er það áfallið sem markar skilin í veruleika ungmenna. Í tónlistinni í báðum myndum er það hin klassíska tónlist liðins tíma sem tekst á við elektrónískar raddir framtíðarinnar.

Framvinda myndarinnar fer nokkuð hægt af stað. Una og Diddi eyða nóttinni fyrir slysið saman. Eftir að slysið á sér stað um morguninn fylgjumst með vinunum kvíða fyrir því sem áhorfendum er ljóst að hafi átt sér stað. Þegar líður á fara þó tilfinningalegu áhrifin vaxandi. Því lengri tíma sem við verjum með persónunum því þéttar bindumst við þeim tilfinningaböndum. Þegar kemur að lokaskotinu, þar sem notast er við sömu sjónrænu uppbygginguna og tónlistina og upphaf myndarinnar, er varla hægt að verjast tárum. Þökk sé þessum strúktúr myndarinnar verða lok hennar enn áhrifameiri og stendur hún eftir sem eitt eftirminnilegasta íslenska kvikmyndaverk síðari ára. Það er ekki að ástæðulausu að fjórar myndir Rúnars hafa verið fengnar til sýningar á Kvikmyndahátíðinni í Cannes og sannar Ljósbrot enn og aftur að hér er á ferðinni einn af okkar hæfileikaríkustu leikstjórum.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR