RÚV segir frá:
Ólafur Darri leikur matreiðslumeistara sem kemur úr fangelsi og ákveður að stofna veitingastað í von um að vinna hug og hjörtu fyrrverandi unnustu. Til að fjármagna reksturinn þvættar hann peninga á staðnum. Hera Hilmar leikur rekstrarstjóra veitingastaðarins sem nýtir sér einfeldni matreiðslumeistarans til að vinna að eigin hagsmunum. Saman sökkva þau dýpra og dýpra í vef glæpa í undirheimum Reykjavíkur þar sem hvert rangt spor getur reynst dýrkeypt.
„Við erum spenntir að fá tækifæri til að vinna með jafn hæfileikaríku og reynslumiklu fagfólki og kemur að Reykjavík Fusion,“ segja leikstjórarnir.
Þáttaröðin er framleidd fyrir Sjónvarp Símans og hefur þegar selst erlendis. Fransk-þýska menningarstöðin ARTE kemur að framleiðslu þáttanna og mun sýna þá á frönskum og þýskum málsvæðum. Sjónvarpsstöðin YLE í Finnlandi, AMC Iberia á Spain/Portugal og ERR, ríkismiðillinn í Eistlandi hafa þegar keypt þáttaröðina. Henni hefur samkvæmt fréttatilkynningu verið lýst sem Breaking Bad mætir The Bear, sem eru tvær geysivinsælar þáttaraðir.
Hörður Rúnarsson er höfundur og helsti hugmyndasmiður þáttanna en Birkir Blær Ingólfsson er meðhöfundur og hugmyndasmiður.