Klippurnar munu halda áfram að birtast reglulega á Klapptré. Þrjár nýjustu verða einnig sýndar á RÚV innan tíðar.
Þetta efni er tímafrekt og kostnaðarsamt í vinnslu og því er klippunum ekki ætlað að vera einhverskonar tæmandi úttekt á öllu því sem er að gerast í íslensku kvikmyndagreininni, það er frekar að Klapptré í heild sinni komist nær því markmiði. Hugmyndin er að grípa það sem hentar þessu frásagnarformi hverju sinni og taka það fyrir sem ekki fær mikla umfjöllun annarsstaðar.
Hér má skoða þær allar, sú nýjasta er efst og svo koll af kolli.
Skjaldborg 2024: Ásgrímur Sverrisson fór á Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, sem fram fór á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina. Í þessari klippu er fjallað um helstu hápunktana, sýnd brot úr myndum og rætt við höfunda þeirra. Útgáfa með enskum texta er hér.
Stuttmyndir á Stockfish hátíðinni 2024: Stuttmyndasamkeppnin Sprettfiskur var meðal dagskrárliða á Stockfish hátíðinni í apríl síðastliðnum. Þar voru sýnd 20 verk af ýmsu tagi, leiknar stuttmyndir, tilraunaverk, stuttar heimildamyndir og tónlistarmyndbönd. Hér er fjallað um tvær þessara mynda, annarsvegar tilraunaverkið Flökkusinfóníu eftir þær Jóní Jónsdóttur og Eirúnu Sigurðardóttir sem kalla sig Íslenska gjörningaklúbbinn og hinsvegar leiknu stuttmyndina Fár eftir Gunni Martinsdóttur Schluter, sem frumsýnd var á Cannes hátíðinni í fyrra.
Svipmynd af Sigurði Sverri Pálssyni kvikmyndatökustjóra: Í þessari klippu ræðir Ásgrímur Sverrisson við flesta þá leikstjóra sem Sigurður Sverrir Pálsson vann með á ferlinum og einnig Sigurð Sverri sjálfan. Sigurður Sverrir er einn af lykilmönnum þeirrar sköpunarbylgju sem kennd er við íslenska kvikmyndavorið, en ferill hans í kvikmyndagerð spannar tæplega sextíu ár. Hann stýrði kvikmyndatöku fimmtán íslenskra bíómynda, auk sjónvarpsmynda, stuttmynda og fjölda heimildamynda. Sigurður Sverrir Pálsson kvikmyndatökustjóri hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar á Eddunni 2024 fyrir framúrskarandi framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar. Í þessari klippu ræða leikstjórar sem hann vann með um Sigurð Sverri, listrænt innsæi hans og verkþekkingu, en ekki síður um það andrúmsloft sem honum fylgir í því flókna og margræða sköpunarferli sem felst í því að koma kvikmynd frá hugmyndastigi til sýningar. Sýnd eru brot úr fjölmörgum kvikmyndum sem hann filmaði.
Spessi og myndin hans um Megas: Ásgrímur Sverrisson ræðir við Spessa ljósmyndara og leikstjóra heimildamyndarinnar Afsakið meðanað ég æli, sem var frumsýnd á Íslandi í Bíó Paradís í mars 2024.
Birkir Ágústsson dagskrárstjóri Símans: Sex þáttaraðir árlega: Ásgrímur Sverrisson ræðir við Birki Ágústsson dagskrárstjóra innlendrar dagskrárgerðar Símans um framleiðslu leikinna þátta en Síminn sendir frá sér sex leiknar þáttaraðir 2024. Rætt er um hverskonar efni þau leggi áherslu á, samstarfið við kvikmyndagerðarmenn, skapandi fjármögnun, samskiptin við áhorfendur og síðast en ekki síst, hina vinsælu þáttaröð Venjulegt fólk.
Þorsteinn Jónsson um Vordaga í Prag: Þorsteinn Jónsson kvikmyndaleikstjóri hefur skrifað bókina Vordagar í Prag, þar sem hann leggur út af námsárum sínum í hinum kunna kvikmyndaskóla FAMU á árunum 1968 til 1972. Þetta er ekki hefbundin endurminningabók, heldur vefur Þorsteinn eigin reynslu og fólkinu sem hann kynntist, saman við skáldskap. Úr verður frásögn af ungum manni sem lendir strax í hringiðu heimsviðburða og kynnist síðan snarrugluðu stjórnkerfi, þrautseigum Tékkum og síðast en ekki síst, ástinni. Ásgrímur Sverrisson ræðir við Þorstein um bókina, tímann í Prag, tékkneska kvikmyndavorið, hina leyndardómsfullu Veru og hvernig á að segja sögur.
Grasrótin 2023 – íslenskar stuttmyndir á RIFF: Hin árlega stuttmyndasamkeppni RIFF fór fram í Háskólabíói 30. september og 1. október 2023. Hér eru sýnishorn úr þremur athyglisverðum stuttmyndum, sem og stutt spjall við höfunda þeirra. Myndirnar eru: Sorg etur hjarta eftir Hauk Hallsson, Ummerki eftir Joe Simmons, en Guðni Líndal Benediktsson skrifaði handritið og Allt um kring eftir Birnu Ketilsdóttur Schram.
Fyrsta íslenska kvikmyndin í Cannes: Í þessari Klapptrésklippu fjallar Ásgrímur Sverrisson um Magnús Jóhannsson og kvikmynd hans Hálendi Íslands (Highlands of Iceland) sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1954, fyrst íslenskra kvikmynda. Rætt er við Gunnþóru Halldórsdóttur, sérfræðing á Kvikmyndasafni Íslands, um Magnús, helstu verk hans og störf og loks eru sýndir nokkrir bútar úr kvikmyndinni Hálendi Íslands.
Háskólabíó kvatt – bíóaðsókn á uppleið eftir Covid: Smávegis um Háskólabíó í kjölfar þess að Sena hefur ákveðið að hætta þar bíórekstri um næstu mánaðamót. Einnig spjall við Konstantín Mikaelsson hjá Senu um bíórekstur eftir Covid og hvernig aðsóknin er að komast í eðlilegt horf.
Skjaldborgarklippa 2023: Skýrsla Ásgríms Sverrissonar, ritstjóra Klapptrés, frá Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði í lok maí 2023. Fjallað er um heimildamyndirnar SUPER SOLDIER, UPPSKRIFT: LÍFIÐ EFTIR DAUÐANN, SKULD, HEIMALEIKINN og SOVIET BARBARA.
Baltasar Kormákur: Gufunes, íslensk kvikmyndagerð og framtíðin: Viðtal við Baltasar Kormák framleiðanda og leikstjóra um uppbyggingaráform í Gufunesi og stöðuna í kvikmyndaheiminum og íslenska kvikmyndabransanum. Einnig rætt stuttlega um væntanlega mynd hans, Snertingu.