LJÓSBROT til Karlovy Vary, Sjón í dómnefnd

Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson og stuttmyndin Vem ropar för Alvar eftir Önnu Jóakimsdóttur-Hutri verða sýndar á Karlovy Vary hátíðinni í Tékklandi. Hátíðin fer fram dagana 28. júní til 6. júlí. Rithöfundurinn Sjón mun sitja í aðaldómnefnd hátíðarinnar.

Ljósbrot á ýmsum hátíðum í sumar, frumsýnd á Íslandi 16. ágúst

Ljósbrot verður sýnd í Horizons-flokki hátíðarinnar. Myndin var heimsfrumsýnd í maí á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún var opnunarmynd Un Certain Regard. Hún gerist á fallegum vordegi þegar líf ungrar konu snýst á hliðina á svipstundu. Upphefst þá rússíbanareið tilfinninga þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.

Á dögunum tók Ljósbrot þátt í Cabourg Film Festival í Normandy, Frakklandi. Myndin vann fyrstu verðlaun í flokknum Prix du Jury Jeunesse – verðlaun unga fólksins. Myndin verður einnig á Munich International Film Festival um mánaðamótin júní/júlí og New Zealand Film Festival um mánaðamótin júlí/ágúst. Sýningar hefjast á Íslandi 16. ágúst.

Stuttmynd Önnu Maríu Jóakimsdóttur-Hutri, Vem ropar för Alvar (Hver stendur með Alvari) tekur þátt í Future Frames dagskránni á Karlovy Vary, sem fram fer árlega á vegum European Film Promotion. Þar eru sýndar nýjar myndir ungra og efnilegra leikstjóra.

Þá mun stuttmyndin Blue Boy í leikstjórn Nikulásar Tuma Hlynssonar taka þátt í stuttmyndakepnninni. Nikulás nemur við kvikmyndaskólann FAMU í Prag.

Sjón í dómnefnd

Rithöfundurinn Sjón situr í dómnefnd aðalverðlauna hátíðarinnar í ár ásamt meðal annars hinum kunna framleiðanda Christine Vachon og stórleikaranum Geoffrey Rush. Sjón hefur á undanförnum árum látið til sín taka í kvikmyndum. Hann skrifaði handrit kvikmyndanna Dýrsins í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og The Northman í leikstjórn Roberts Eggers. Um þessar mundir vinnur hann að kvikmyndaaðlögun leikverksins Hamlet ásamt leikstjóranum Ali Abbasi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR