Ljósbrot á ýmsum hátíðum í sumar, frumsýnd á Íslandi 16. ágúst
Ljósbrot verður sýnd í Horizons-flokki hátíðarinnar. Myndin var heimsfrumsýnd í maí á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún var opnunarmynd Un Certain Regard. Hún gerist á fallegum vordegi þegar líf ungrar konu snýst á hliðina á svipstundu. Upphefst þá rússíbanareið tilfinninga þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.
Á dögunum tók Ljósbrot þátt í Cabourg Film Festival í Normandy, Frakklandi. Myndin vann fyrstu verðlaun í flokknum Prix du Jury Jeunesse – verðlaun unga fólksins. Myndin verður einnig á Munich International Film Festival um mánaðamótin júní/júlí og New Zealand Film Festival um mánaðamótin júlí/ágúst. Sýningar hefjast á Íslandi 16. ágúst.
Stuttmynd Önnu Maríu Jóakimsdóttur-Hutri, Vem ropar för Alvar (Hver stendur með Alvari) tekur þátt í Future Frames dagskránni á Karlovy Vary, sem fram fer árlega á vegum European Film Promotion. Þar eru sýndar nýjar myndir ungra og efnilegra leikstjóra.
Þá mun stuttmyndin Blue Boy í leikstjórn Nikulásar Tuma Hlynssonar taka þátt í stuttmyndakepnninni. Nikulás nemur við kvikmyndaskólann FAMU í Prag.
Sjón í dómnefnd
Rithöfundurinn Sjón situr í dómnefnd aðalverðlauna hátíðarinnar í ár ásamt meðal annars hinum kunna framleiðanda Christine Vachon og stórleikaranum Geoffrey Rush. Sjón hefur á undanförnum árum látið til sín taka í kvikmyndum. Hann skrifaði handrit kvikmyndanna Dýrsins í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og The Northman í leikstjórn Roberts Eggers. Um þessar mundir vinnur hann að kvikmyndaaðlögun leikverksins Hamlet ásamt leikstjóranum Ali Abbasi.