Í frétt Heimildarinnar sem birtist í dag segir að „óháð úttekt verður gerð á starfsemi ríkisstyrktu kvikmyndahátíðarinnar RIFF.“
Blaðið vitnar í svarbréf ráðuneytisins við fyrirspurn þess, þar sem meðal annars segir: „Ráðuneytið telur mikilvægt að skoða styrkjaumgjörðina reglulega með það að leiðarljósi að bæta gagnsæi og gæði […] Ráðherra hefur því kallað eftir óháðri úttekt á RIFF með það að leiðarljósi að gera grein fyrir stöðu hátíðarinnar bæði sem verðmætasköpun fyrir ferðaþjónustu og listgreinar og sem menningarviðburður.“
Fyrrum starfsmaður RIFF skrifar bréf til Reykjavíkurborgar
Fyrr í apríl greindi Heimildin frá bréfi fyrrum starfsmanns RIFF til Reykjavíkurborgar þar sem fram kom gagnrýni á vinnubrögð Hrannar Marinósdóttur.
Skýrsla gerð um RIFF fyrir rúmum áratug en aldrei birt opinberlega
Í þessari frétt kemur einnig fram að kvartanirnar gegn RIFF og Hrönn séu sams konar eðlis og fyrir rúmum áratug síðan þegar eftirlitsnefnd gerði „svarta skýrslu“ um starfsemi hátíðarinnar sem leiddi til þess að Reykjavíkurborg vildi ekki styrkja hátíðina um hríð, líkt og fjallað var um í fjölmiðlum á þeim tíma. Þessi skýrsla var aldrei gerð opinber á sínum tíma vegna þess að upplýsingarnar í henni voru „erfiðar, óvægnar og viðkvæmar“, eins og einn aðili innan úr stjórnkerfinu sagði í fjölmiðlum, en þær byggðu meðal annars á viðtölum við starfsfólk RIFF.
Hér má skoða samantekt Klapptrés um málið frá 17. janúar 2014.