Endurgreiðslur nema um 10,5 milljörðum á undanförnum árum, um tveir þriðju til erlendra verkefna

Samkvæmt tölum sem sjá má á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands nema endurgreiðslur á árunum 2022 til apríl 2024 um 10,5 milljörðum króna. Langstærsta einstaka verkefnið sem fær endurgreiðslu er True Detective: Night Country sem fær rúma 4 milljarða króna.

True Detective á pari við dýrustu þáttaraðir

True Detective verkefnið fékk rúma fjóra milljarða í 35% endurgreiðslu, sem þýðir að kostnaður við verkefnið hér á landi hefur numið um 11.5 milljörðum króna (81.5 milljónum dollara). Þættirnir voru sex talsins og því nemur kostnaður tæpum tveimur milljörðum króna á þátt, eða rúmum 14 milljónum dollara. Til samanburðar er síðasta syrpa Game of Thrones sögð hafa kostað um 15 milljónir dollara á þátt og lokasyrpa The Crown um 14.4 milljónir dollara á þátt.

35 erlend verkefni, 151 innlent á tímabilinu

Tölurnar sýna að erlend verkefni hafa fengið í kringum tvo þriðju af heildarupphæðinni, eða um 6.661 milljarða króna. Samtals eru þetta 35 verkefni, flest stór bandarísk kvikmynda- eða sjónvarpsverk, en líka ýmislegt fleira.

Innlend verkefni, þar með talin samframleiðsla ýmiskonar, hafa fengið um 3.759 milljarða. Á bakvið þá tölu eru samtals 151 verkefni, bíómyndir, leiknar þáttaraðir, heimildamyndir, ýmiskonar sjónvarpsefni og fleira.

Líkt og sjá má á töflunni hér að neðan eru miklar sveiflur milli innlendra og erlendra verkefna milli ára. Upplýsingarnar ná til dagsins í dag, en ljóst er að margskonar verkefni eiga eftir að koma til endurgreiðslu á þessu ári.

Ítarupplýsingar, til dæmis upphæð hvers verkefnis og skiptingu eftir árum, má skoða hér.

ÁR INNLENT ERLENT
2022 1.475.000.000 1.835.000.000
2023 2.064.000.000 805.000.000
2024 til apríl 220.000.000 4.021.000.000
SAMTALS* 3.759.000.000 6.661.000.000
*Tölur eru rúnnaðar
Alls innlent og erlent: 10.420.000.000

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR