Viðtalið má lesa hér í heild.
Úr viðtalinu:
Hvers vegna skiptir máli að vera með góða kvikmyndagerð hér á landi. Hvaða máli skiptir það fyrir íslensku þjóðina?
„Þurfum við ekki að vernda sögu lands og þjóðar, okkar menningu? Tala nú ekki um núna þegar myndmál er í raun búið að yfirtaka ritmálið. Er ekki helmingur af öllum drengjum undir fimmtán ára ólæsir og einn þriðji af stúlkum?“ segir Sigurjón og heldur áfram:
„Þetta er enn þá mikilvægara en nokkurn tímann fyrr. Ef við ætlum að geta haldið uppi okkar sérkennum og sögu lands og þjóðar þá verðum við auðvitað að geta búið til myndefni af öllum tegundum á okkar eigin tungumáli, úr okkar eigin sögu, þjóðfélagi og upplifunarheimi.“
Síðar segir:
Talið berst að endurgreiðslum frá íslenska ríkinu á kostnaði við kvikmyndagerð hér á landi. Sigurjón segir þessar endurgreiðslur nauðsynlegar en undirstrikar mikilvægi þess að fjármagninu sé ekki öllu dælt til útlendinga.
„Við þurfum að koma jafnvægi á það eins og aðrar þjóðir hafa gert. Til að mynda með því að skattleggja streymisveiturnar,“ og nefnir sem dæmi fjársvelta íslenska fjölmiðla sem kvarta undan því að þeir séu að missa tekjur.
„Sem er alveg rétt, en við erum að missa mest af þeim til útlendinganna,“ segir Sigurjón sem vill að horft verði til annara þjóða og þak sett á endurgreiðslur til erlendrar kvikmyndagerðar hér á landi.
„Endurgreiðslan er forsendan fyrir því að við getum haldið uppi greininni, en við þurfum að passa upp á jafnvægið milli innlendrar framleiðslu og erlendrar.“