Þetta kemur fram á vef KMÍ og þar segir:
Hanna Ragnheiður tekur við starfi Jóns Óskars Hallgrímssonar og þakkar Kvikmyndamiðstöð honum fyrir gott samstarf.
Hanna Ragnheiður er með BA-gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur einnig lokið meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík ásamt þónokkrum námskeiðum í opinberri stjórnsýslu hjá Háskóla Íslands.
Hanna hefur starfað sem fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjárlaga og gæðamála hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu síðustu tvö ár. Áður var hún sérfræðingur á skrifstofu fjárlaga, rekstrar og innri þjónustu hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í tæp sex ár. Í störfum sínum hjá ráðuneytunum hefur hún stýrt ýmsum verkefnum, meðal annars í tengslum við umbætur og þróun verklags, bókhald, frumvarpa- og samningagerð auk kostnaðar- og áhrifamats allra frumvarpa ráðherra.
Hanna Ragnheiður hefur einnig sinnt fjárlaga- og fjármálaáætlunargerð, rekstraráætlanagerð og fjárhagseftirliti með fjölda fjárlagaliða ráðuneytisins, þar með talið fjárlagalið endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar og hefur Hanna haft eftirfylgni með fjármálum fjölda undirstofnana ráðuneytisins sem nær meðal annars til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasafns Íslands. Áður starfaði Hanna sem verkefnastjóri og frumkvöðull hjá GeoSilica Iceland ehf. í eitt ár og átti þátt í að koma því fyrirtæki af stað.