Noemi Ferrer Schwenk ráðin kvikmyndaráðgjafi

Noemi Ferrer Schwenk hefur verið ráðin sem kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Noemi hefur starfað á vettvangi kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar í um 25 ár og hefur yfirgripsmikla reynslu af fjármögnun og dreifingu kvikmyndaverka auk ráðgjafar og áætlanagerðar.

Þetta kemur fram á vef KMÍ og þar segir einnig:

Hún starfaði sem yfirmaður DR Sales hjá danska ríkisútvarpinu frá 2020-2022. Áður var hún yfirmaður alþjóðadeildar dönsku kvikmyndastofnunarinnar þar sem hún fór meðal annars fyrir kynningarmálum á alþjóðavettvangi auk áætlanagerðar um samframleiðslur og veitti ráðgjöf um alþjóðlega fjármögnun stórra danskra kvikmyndaverka. Frá 2009-2011 var hún fjármálastjóri hjá framleiðslufyrirtækinu Zentropa þar sem hún lagði meðal annars mat á alþjóðlegar samframleiðslur. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Screen Ireland þar sem hún lagði meðal annars mat á listræna þætti leikins efnis, heimildamynda, teiknimynda og stuttmynda auk fjármögnunar- og markaðsmöguleika.

Noemi hefur lokið námi í sjónvarpsframleiðslu við Bayerische Akademie für Film- und Fernsehen, hún er með meistaragráðu í norrænni textafræði frá háskólanum í München og BA-gráðu í stjórnmálafræði frá háskólanum í Augsburg í Þýskalandi. Hún stundar nú sértækt MBA-nám í evrópskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR