Dans- og söngvamyndin Abbababb! er tilnefnd sem besta norræna kvikmyndin á Buster-hátíðinni í Danmörku. Buster er ein stærsta barna- og fjölskylduhátíðin í Skandinavíu og sýnir yfir 170 myndir sem ætlaðar eru börnum á aldrinum 3-16 ára.
Hátíðin fer fram 25. september – 8. október í Kaupmannahöfn. Abbababb! var frumsýnd á Íslandi í september 2022 og var frumsýnd utan landsteina í keppnisflokki á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Zlín í Tékklandi síðasta vor.
Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikstjóri og handritshöfundur Abbababb!, ræddi um myndina í viðtali við Gert Hermans, blaðamann ZFF, á kvikmyndahátíðinni í Zlín.
Myndin gerist á 9. áratugnum og segir frá Hönnu og vinum hennar í hljómsveitinni Rauðu hauskúpunni. Þegar þau komast að því að óprúttnir náungar ætla að sprengja upp skólann á lokaballinu, þurfa þau að beita öllum sínum ráðum til að ná sökudólgnum.
Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Nanna Kristín Magnúsdóttir. Í aðalhlutverkum eru þau Ísabella Jónatansdóttir, Óttar Kjerulf Þorvarðarson og Vilhjálmur Árni Sigurðsson. Framleiðendur eru Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson.