Baldvin Z segir hina nýju þætti seinni hluta heildarsögu, en ekki nýja syrpu í viðtali við Screen.
Þættirnir fjalla um lögreglukonu (Aldís Amah Hamilton), sem neyðist til að horfast í augu við fortíð sína þegar hún rannsakar röð dularfullra dauðsfalla í heimabæ sínum á suðurströnd Íslands. Seinni hlutinn er beint framhald hins fyrri og hefst þar sem hún eignast dóttur og glímir við fæðingarþunglyndi.
Baldvin Z segir í samtali við Screen: „Fyrsti þátturinn er meira eins og þáttur níu en þáttur einn í nýrri seríu. Þess vegna kjósum við að kalla þetta „annan hluta“ í stað „syrpu tvö“.
Bakhjarlar verksins eru sem fyrr Stöð 2, All3Media sem fer með alþjóðlega sölu, Lunanime og VRT í Belgíu og finnska almannastöðin YLE.
Baldvin Z skrifar handrit ásamt Ragnari Jónssyni, Aldísi Amah Hamilton og Elías Kofoed Hansen, sem nú kemur inn í skrifteymið.
Arnbjörg Hafliðadóttir framleiðir þættina fyrir Glassriver. Baldvin Z mun leikstýra fjórum af átta þáttum en Álfheiður Marta Kjartansdóttir og Erlendur Sveinsson munu stýra tveimur hvort.