Kuldi eftir Erling Óttar Thoroddsen verður frumsýnd 1. september næstkomandi. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók Yrsu Sigurðardóttur.
Segir á Vísi:
Þegar Óðinn byrjar að rannsaka áratuga gömul dauðsföll á unglingaheimili, fer hann að gruna að óhugnalegir atburðir þaðan tengist dularfullu sjálfsmorði eiginkonu hans.
Með aðalhlutverk fara Jóhannes Haukur Jóhannesson, Elín Hall, Selma Björnsdóttir, Mikael Kaaber, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir. Þá fer Ólöf Halla Jóhannesdóttir einnig með stórt hlutverk í myndinni, en hún er dóttir Jóhannesar Hauks og leikur sömuleiðis dóttur hans í myndinni.
Síðasta kvikmynd sem byggð var á verkum Yrsu var hrollvekjan Ég man þig og var henni vel tekið í íslenskum kvikmyndahúsum.
Leikstjóri og handritshöfundur er Erlingur Óttar Thoroddsen. Hann hefur meðal annars gert myndirnar Rökkur og Child Eater, sem fór sigurför um hrollvekjuheiminn og var meðal annars valin til að taka þátt í Horror Night á Stockholm International Film Festival.
Framleiðendur Kulda eru Sigurjón Sighvatsson og Heather Millard.