Kvikmyndagreinin (kvikmyndir og sjónvarp) er í afar örum vexti. Aukning í rekstrartekjum nemur um 80% á tíu árum samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Greinin er einnig langstærst að umfangi í skapandi greinum.
Á vef Hagstofunnar liggja fyrir tölur um rekstrartekjur í kvikmyndagreininni til og með 2021. Á tíu ára tímabili (2012-2021) hefur greinin vaxið gríðarlega, eða um 80% miðað við núvirtar tölur. Verðbólga á sama tímabili nemur um 46%. Rekstraraðilum hefur jafnframt fjölgað mikið, eða um rúm 40%.
Ár | Fjöldi rekstraraðila | Rekstrartekjur |
---|---|---|
2012 | 571 | 12.011 |
2013 | 647 | 19.410 |
2014 | 683 | 21.659 |
2015 | 680 | 18.717 |
2016 | 708 | 25.017 |
2017 | 689 | 16.847 |
2018 | 706 | 21.304 |
2019 | 705 | 22.412 |
2020 | 774 | 29.044 |
2021 | 794 | 27.878 |
HEIMILD: Hagstofa Íslands. | Rekstrartekjur í milljörðum króna.
Í frétt á vef Hagstofunnar í dag kemur fram að rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum voru rúmlega 126 milljarðar árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Milli áranna 2019 og 2021 hækkuðu rekstrartekjur hins vegar einungis um 0,4% á verðlagi ársins 2021. Rekstrartekjur 2021 voru hæstar í kvikmyndum og sjónvarpi eða um 22% af heildartekstrartekjum og tæp 15% í fjölmiðlum annars vegar og hönnun og arkitektúr hins vegar.
Milli 2020 og 2021 jukust rekstrartekjur mest í tónlist, um 54%, og í menningararfi, eða 34%. Hins vegar var mesti samdráttur í þeim greinum árið á undan (eða á milli áranna 2019 og 2020) þegar rekstrartekjur drógust saman um 44% í tónlist og 43% í menningararfi. Rekstrartekjur hækkuðu mest í tölvuleikjum, um 47%, og í kvikmyndum, um 25% á milli áranna 2019 og 2020.
Sé horft til fimm ára tímabilsins, 2017-2021, lækkuðu rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum að jafnaði um 4,2%. Þar af lækkuðu þær í fimm greinum og hækkuðu í sjö. Mesta hækkunin á því tímabili var í kvikmyndum og sjónvarpi, um 44% og í tölvuleikjum, um 40%., en mesta lækkunin í prentun, 46%.
Á tíu ára tímabili, 2012-2021, jukust rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum alls um 2,9%. Aukningin var mest í menningararfi þar sem rekstrartekjur fjórfölduðust, fóru úr 425 milljónum í 1,8 milljarða, og í hönnun og arkitektúr þar sem rekstrartekjur fóru úr 8,4 milljörðum í 18,2 milljarða. Þá varð tæplega tvöföldun á rekstrartekjum í kvikmyndum og sjónvarpi og listnámi. Rekstartekjur lækkuðu aftur á móti í tveimur menningargreinum á sama tímabili, mest í prentun, um 60%.