Bíótek Kvikmyndasafnsins mun sýna úr fimm kvikmyndum sem lýsa óeirðunum á Austurvelli 1949 í Bíó Paradís sunnudaginn 26. mars. Sumar þeirra eru nýlega uppgötvaðar. Einnig verða sýndar kvikmyndirnar Z eftir Costa Gavras og Poltergeist eftir Tobe Hooper.
Dagskráin 26. mars er svohljóðandi:
Kl. 15: Ísland á filmu: Er sjón sögu ríkari? (1949)
Kolbeinn Rastrick segir frá niðurstöðum rannsóknar á tíu kvikmyndum sem varðveittar eru á Kvikmyndasafni Íslands. Myndirnar eiga það sameiginlegt að sýna óeirðirnar við Alþingishúsið sem áttu sér stað þann 30. mars árið 1949 vegna fyrirhugaðrar inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Safnið hefur á undanförnum árum fengið inn nýjar myndir sem tengjast óeirðunum. Óeirðamynd Sósíalistaflokksins kom inn á safnið árið 2016 en höfundur hennar er óþekktur, kom hún inn á safnið í gegnum millilið frá Sovíetríkjunum sálugu. Fyrir rúmu ári kom inn á safnið kvikmynd sem Vigfús Sigurgeirsson gerði líklega fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem heitir Kommúnistaárásin á Alþingi. Þá verða myndir Kjartans Ó. Bjarnasonar, Sigurðar G. Norðdahl og Karls Sæmundssonar sýndar en allar varpa þær ljósi á þennan merkilega dag í sögu íslenska lýðveldisins. Kolbeinn Rastrick og Ingibjörg Haraldsdóttir fyrrverandi formaður félags herstöðvarandstæðinga spjalla við áhorfendur eftir sýninguna og fjalla um hvernig ólík sýn á inngönguna mótar viðbrögð stríðandi fylkinga.
Kl. 17: Z (1969)
Kvikmynd eftir Costa-Gavras sem vann til fjölmargra verðlauna þegar hún kom fyrst út. Þar á meðal fékk hún Óskars- og BAFTA-verðlaun og dómnefndaverðlaun á Cannes. Kvikmyndin segir frá því hvernig þekktur stjórnmálamaður og læknir er myrtur mitt í hringiðu ofbeldisfullra mótmæla. Embættismenn á vegum hersins og stjórnvalda vilja hylma yfir það. Þrautseigur sýslumaður ætlar þó að gera allt sem hann getur til að koma upp um glæpinn. Sýnd í samstarfi við Franska sendiráðið. Eftir sýninguna er boðið upp á léttar veitingar.
19:30: Poltergeist (1982)
Ung fjölskylda kaupir sér hús þar sem draugagangs verður fljótlega vart. Í fyrstu virðast draugarnir vingjarnlegir og færa til hluti um húsið öllum til mikillar skemmtunar. Þeir færa sig svo upp á skaftið og hræða líftóruna úr fjölskyldunni og ræna að lokum yngstu dótturinni. Gríðarlega spennandi hrollvekja sem sló rækilega í gegn þegar hún kom út auk þess að vinna til margra verðlauna.