Jörundur Rafn Arnarson myndbrellumeistari var inn þeirra sem stýrðu myndbrelllum (VFX) við gerð kvikmyndarinnar Triangle of Sadness, sem hlaut Gullpálmann á Cannes í vor sem og Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem mynd ársins á dögunum. Hann ræddi við Morgunblaðið um starf sitt.
Segir á vef mbl.is
Íslendingar gera sig æ meira gildandi í hinum stóra heimi kvikmynda og sjónvarpsefnis og hafa ýmsa aðkomu að verkefnum áður en myndirnar birtast okkur á hvíta tjaldinu.
Jörundur Rafn Arnarson hefur skapað sér nafn í myndbrellum í framleiðslu sjónvarpsefnis og kvikmynda. Jörundur vann til að mynda í tvo mánuði við kvikmyndina Triangle of Sadness sem hlaut Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu.
Mbl.is tók Jörund tali og spurði hvort því fylgi ekki notaleg tilfinning þegar mynd eins og þessi fær virt verðlaun og menn hafa lagt á sig mikla vinnu til að hún sé sem best úr garði gerð.
„Jú fyrir mig og mína kollega sem komu að þessu verkefni þá fylgir þessu frábær tilfinning. Við tölum stundum um okkar vinnu sem ósýnilegar brellur vegna þess að enginn er að spá í þessu í mynd eins og þessari. Aðallega vegna þess að í þessum atriðum eru ekki risaeðlur eða geimskip og fólk veltir því brellum ekki fyrir sér í þessum atriðum,“ segir Jörundur en engu að síður eru atriðin þannig að ekki er hægt að taka þau upp með hefðbundnum hætti.
„Þetta eru eðlilegir atburðir en þó ekki hægt að taka atriðin upp sem venjuleg atriði. Þá finnst manni auðvitað skemmtilegt að þessar brellur fari undir smásjá og enginn setji út á neitt. Yfirleitt er það þannig að því minni athygli sem maður fær fyrir brellurnar því ánægðari er maður, eins undarlega og það hljómar.
Hjá mér fer þó iðulega meira af mínum tíma í tökur heldur en eftirvinnsluna. Tökurnar eru mitt sérsvið.“
Starfar mikið með Peter Hjorth
Hvernig kom það til að Jörundur fékk tækifæri til að vinna að myndinni Triangle of Sadness?
„Ég hef átt samstarf við danskan brellustjóra, Peter Hjorth, sem er afkastamikill og mjög þekktur í bransanum í Evrópu. Hann hefur séð að miklu leyti um brellurnar fyrir Lars Von Trier síðustu tuttugu árin eða svo. Starfsheiti mitt er visual effects supervisor á ensku en hér heima höfum við kallað þetta myndbrellumeistari. Í því felst að maður tekur þátt í undirbúningi kvikmyndar varðandi tölvubrellur, tekur þátt í upptökunum sjálfum og síðar tekur við eftirvinnan þar sem brellurnar sjálfar eru gerðar,“ segir Jörundur en hann segist hafa öðlast talsverða reynslu þegar hann starfaði í þrjú ár við þættina frægu Game of Thrones.
„Varðandi aðkomu mína að Triangle of Sadness þá kom upp sú staða að Peter gat ekki verið viðstaddur tökurnar. Hann var að vinna að stóru verkefni fyrir Lars von Trier í Danmörku á sama tíma en Triangle of Sadness var tekin upp í Svíþjóð. Hann fékk mig því til að vera í tökunum og ég var í tvo mánuði í Trollhättan í Svíþjóð.“
Myndin fékk eins og áður segir aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni kunnu í Cannes en athyglisvert má kalla að Jörundur vann við tvær þeirra mynda sem tilnefndar voru.
„Mig minnir að fjórar myndir hafi verið tilnefndar til Gullpálmans en við Peter komum einnig að mynd sem var tilnefnd sem heitir Holy Spider.“
Þarf að hafna verkefnum í hverjum mánuði
Jörundur er með fyrirtæki hér heima en ferðast skiljanlega mikið vegna vinnunnar og er í samstarfi við fyrirtæki erlendis. Spurður um hvort hanni hafi nóg að gera í svo sérhæfðu starfi segist Jörundur þurfa að hafna verkefnum vegna anna um þessar mundir.
„Vinsældir Íslands, ásamt samkeppninni sem ríkir hjá streymisveitum, gera það að verkum að ég hef alltof mikið að gera. Vöxturinn í bransanum hefur verið mikill og verkefnum hefur fjölgað fyrir okkur sem erum í myndbrellum. Áður voru nokkrar Hollywoodmyndir framleiddar á ári sem ætluðu sér stóra hluti í kvikmyndahúsum og settu fé í brellur. En nú er mun meira efni í alþjóðlegri dreifingu þar sem hugsað er út í þennan þátt. Til dæmis eru seríur á streymisveitum gjarnar á að notast við myndbrellur.
Ég þarf að ýta frá mér nokkrum verkefnum í hverjum mánuði. Þegar mest var í sumar þá þurfti ég að hafna tveimur til þremur fyrirspurnum á dag. Nú get ég farið að velja betur verkefni frekar en að segja já við fyrstu fyrirspurnum sem berast,“ segir Jörundur sem er reyndur eftir að hafa verið í tuttugu ár í bransanum. Hann segist vera sjálflærður í faginu en hafi öðlast dýrmæta reynslu þegar hann starfaði fyrir Framestore.
„Framestore er eitt stærsta brellufyrirtæki í heiminum og var með útibú hérna á Íslandi sem Daði Einarsson setti upp og stýrði. Þar unnum við aðallega í Hollywoodmyndum og ég var þar í fimm ár eða þar til ég stofnaði mitt eigið fyrirtækið. Var það mesti skólinn fyrir mig.“
Vann í eyðimörkinni í tvo mánuði
Spurður um hvað sé framundan segist Jörundur hafa eytt sumrinu að mestu í Sádí-Arabíu þar sem hann var við tökur og eftirvinnslan sé framundan.
„Þar er verið að framleiða stærstu sjónvarpsseríu sem gerð hefur verið fyrir markaðinn í þeim heimshluta. Kannski mætti lýsa þessu eins og Game of Thrones fyrir arabíska heiminn. Er þetta unnið upp úr bókum sem voru afar vinsælar í þessum heimshluta og eru byggðar á þjóðsögum frá fyrri tíma Íslam. Þetta var ótrúlegt ævintýri og gekk bara vel. Ég var í tvo mánuði í eyðimörkinni yfir hásumarið og fékk því að finna fyrir hitanum. Ég sló persónulegt met í því.
En framundan er mikil eftirvinnsla varðandi það efni því þarna komu fyrir alls kyns verur. Þetta er skemmtilegt verkefni og ég verð í því í allan vetur ásamt danskri kvikmynd,“ segir Jörundur í samtali við mbl.is.