RÚV segir svo frá:
„Fyrst af öllu, Sólveig mín, ég vona að þú sért að horfa. Þetta er handa þér,“ sagði Þráinn þegar hann tók við verðlaununum. „Ég veit ekkert hvað ég á að segja því þessi verðlaun koma allt of seint. Þegar ég var ungur vissi ég alla skapaða hluti og gat tjáð mig um allt. Núna er ég orðinn gamall og veit ekkert í minn haus.“
„Ég er er ákaflega þakklátur fyrir að hafa með einhverjum hætti komist upp með að vinna eingöngu við hluti sem ég hafði áhuga á og vildi gjarnan vinnan við,“ sagði Þráinn. Hann sé þannig gerður frá náttúrunnar hendi að hann hefur aldrei getað gert neitt sem honum þyki leiðinlegt. „Svo allt sem ég geri, geri ég mér til skemmtunar og vonandi einhverjum öðrum líka.“
Þráinn starfaði sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri. Hann speglaði sitt hárbeitta, góðlátlega grín oftar en ekki í persónum og aðstæðum. Og hann var afkastamikill. Til hans helstu verka má nefna Jón Odd og Jón Bjarna, Dalalíf, Skammdegi og Magnús.
„Mig langar til að geta þess að það er fjölmargt í lífinu sem maður hefur enga stjórn á en maður getur ráðið sínum eigin viðbrögðum við því sem gerist. Ég hvet fólk innilega til að sýna æðruleysi frekar en að væla því að ég held að hvort tveggja skili, að minnsta kosti, jafn góðum árangri,“ sagði Þráinn.
Hægt er að horfa á Þráinn veita verðlaununum viðtöku hér.