Volaða land Hlyns Pálmasonar hefur selst vel í Cannes. New Euope Film Sales höndlar sölu á heimsvísu.
Screen kallar myndina „sjóðheita“ og greinir frá því að Curzon hafi keypt dreifingarrétt í Bretlandi og Írlandi, en keðjan er sú stærsta þar á sviði listrænna kvikmyndahúsa.
“Volaða land er stórkostleg kvikmynd sem varpar mjög áhugaverðu ljósi á pólitík, list, sögu, trú og náttúru,“ hefur Screen eftir Eleonora Pesci, innkaupastjóra hjá Curzon. ”Þetta var ein besta myndin sem sýnd var í Cannes.”
Myndin seldist einnig til Spánar, Eystrasaltslandanna, Ungverjalands og Grikklands.
Rétt fyrir Cannes hafði myndin verið seld til Frakklands, Niðurlanda, Póllands, Ástralíu og Nýja Sjálands. Scanbox sér um dreifingu á myndinni í Skandinavíu og Sena á Íslandi, þar sem áætlað er að frumsýna hana 30. september.
Cannes hátíðinni lýkur í dag með afhendingu Gullpálmans. Í gærkvöldi hlaut franska kvikmyndin The Worst Ones eftir Lise Akoka og Romane Gueret aðalverðlaun Un Certain Regard flokksins, þar sem Volaða land tók þátt.