Nokkrar kvikmyndahátíðir eru framundan á næstu vikum og verða haldnar með reglulegum hætti, nú þegar faraldurinn virðist vera í rénum.
Þýskir kvikmyndadagar
Þýskir kvikmyndadagar verða í Bíó Paradís í þrettánda sinn dagana 11.- 20. mars. Hátíðin er í samstarfi við Goethe-Institut Dänemark og Þýska Sendiráðið á Íslandi. Allar myndir verða sýndar á þýsku með enskum texta. Opnunarmyndin er I’m Your Man eftir Mariu Schrader, sem notið hefur vinsælda. Dagskrána má skoða hér.
Frostbiter
Hryllingsmyndahátíðin Frostbiter fer fram í sjöunda sinn á Akranesi helgina 11.-12. mars. Sýndar verða fjöldi stuttmynda víða að og boðið uppá ýmsar uppákomur. Frítt er á alla viðburði og sýningar á hátíðinni. Greg Sestero verður sérstakur gestur hátíðarinnar, en hann lék í hinni alræmdu kvikmynd The Room. Mynd James Franco, The Disaster Artist var byggð á bók Sestero um gerð myndarinnar. Sestero frumsýnir fyrstu mynd sína sem leikstjóri, Miracle Valley, á hátíðinni. Vefur hátíðarinnar er hér.
Stockfish
Kvikmyndahátíðin Stockfish Film Festival & Industry Days verður haldin í áttunda sinn dagana 24. mars til 3. apríl. Stockfish Film Festival & Industry Days er kvikmynda- og ráðstefnuhátíð fagfólks í kvikmyndabransanum og er haldin í Bíó Paradís í samvinnu við öll fagfélög í kvikmyndagreinum á Íslandi. Meðal mynda sem sýndar verða á hátíðinni er Babysitter eftir Monia Chokri sem frumsýnd var á Sundance hátíðinni í byrjun árs. Vefur hátíðarinnar er hér.
Bíótekið og Svartir sunnudagar
Tvær reglulegar kvikmyndadagskrár eru í gangi í Bíó Paradís, annarsvegar Bíótekið þar sem sýndar eru valdar íslenskar kvikmyndir með þátttöku aðstandenda (og einnig norrænar myndir) og Svartir sunnudagar. Dagskrá Bíóteksins er hér og Svartra sunnudaga hér.