Berlinale var fyrst stóru hátíðanna til að gera þáttaröðum hátt undir höfði, með því að hleypa Berlinale Series af stokkunum 2015, segir í grein Variety. Síðar var markaði komið á fót, sem hefur vaxið uppí að vera einn stærsti viðburður á markaði þáttaraða í Evrópu og stærsti einstaki bransaviðburðurinn á Berlinale.
Variety segir þetta tímanna tákn. Árið 2017 hafi til dæmis um 70% af framleiðslufé í Bretlandi farið til bíómynda en 2021 hafi dæmið snúist við, um 73% þess hafi verið varið til þáttaraða.
Fagmiðillinn nefnir einnig að margar bíómyndanna í aðalkeppninni séu framleiddar og seldar af fyrirtækjum með veltu undir milljón dollurum á ári, meðan þáttaraðir séu gjarnan bakkaðar upp af stórfyrirtækjum sem velti milljörðum dollara.
Svörtu sandar eftir Baldvin Z er nefnd meðal þeirra þáttaraða sem hafi staðið upp úr í ár og eitt af dæmunum um samtvinnun kunnra kvikmyndahöfunda og stórra bakhjarla. Svörtu sandar er seld alþjóðlega af All3Media International, sem er stórt alþjóðlegt sölu- og framleiðslufyrirtæki með starfsemi víða um heim og í eigu Warner Bros. og alþjóðlega fjarskiptarisans Liberty Global.
Alþjóðlegar efnisveitur eru nú áhrifamestar á markaði myndefnis, en það hefur sínar takmarkanir. Haft er eftir Julia Fidel, stjórnanda Berlinale Series, að djarfar og óvenjulegar tilraunir í gerð efnis muni eiga erfitt uppdráttar. Í stað þess séu höfundar að vinna innan þekktra greina en gera þó tilraunir innan þeirra marka. Svörtu sandar er nefnd sem dæmi um slíkt, þáttaröðin byrji sem hefðbundin Nordic Noir en eftir því sem fram vindur verði áherslan sífellt meira á fjölskylduharmleik.
Í greininni er einnig bent á að þar sem stóru alþjóðlegu efnisveiturnar leggi mikla áherslu á að ná fótfestu sem víðast, verði áherslan sífelllt meiri á staðbundna framleiðslu og dreifingu. Einnig kemur fram að áhugi áhorfenda í Evrópu sé að færast í auknum mæli frá bandarísku efni, ekki síst vegna þessara áherslna streymiveitanna og að markaðurinn fyrir evrópskt efni fari vaxandi.