Kristín Eiríksdóttir ræðir HYSTORY/SYSTRABÖND málið

Kristín Eiríksdóttir skáld segist hafa lært mikið um höfundarrétt á síðustu mánuðum, eftir að hún upplifði að hugverki sínu hefði verið stolið þegar þáttaröðin Systrabönd kom út. Hún segir það hafa komið sér á óvart hve sár sú lífsreynsla hafi í raun og veru reynst henni.

Vísir segir frá:

Þegar þáttaröðin kom út síðasta vor mátti finna líkindi á milli söguþráðar þáttanna og leikritsins Hystory. Meðal þeirra sem benti á líkindin var höfundur leikritsins, Kristín Eiríksdóttir. Hún ræddi málið við þá Snorra og Bergþór Mássyni í hlaðvarpinu Skoðanabræður.

„Þetta eru hugmyndir sem eru þær sömu sem er skeytt saman og sumar eru meira að segja sagðar á sama hátt og þá er það farið að vera höfundarréttarvarið. Það sem mér fannst áhugavert í þessu er að ég hefði ekki getað ímyndað mér að þetta væri svona vont.“

Kristín skrifaði verkið fyrir leikfélagið Sokkabandið sem samanstendur af leikkonunum Elmu Lísu, Arndísi Hrönn og Birgittu Birgis.

„Þegar ég er byrjuð að skrifa og þegar premissinn er kominn, þá munum við eftir máli. Ég var rosalega hörð með það þegar þetta kemur upp að við værum ekki að fara horfa á það. Það er einhver persónuleg saga og við eigum ekkert í því. Ég er að vinna hérna listaverk … Þetta er bara tilviljun.“

Þá segist hún hafa frábeðið sér alla umræðu um fyrirmyndir. Þegar byggja eigi persónur á raunverulegu fólki, þurfi að biðja um leyfi og tala við viðkomandi, annað sé virðingarleysi.

„En það sem gerist síðan er að ég heyri þessar fréttir af einhverjum málum og það hefur áhrif á mig þegar ég var að skrifa verkið, en þá er ég að byggja á því að hafa heyrt eitthvað.“

„Þetta er mjög persónulegt verk“

Bæði History og Systrabönd fjalla um þrjár konur sem höfðu verið vinkonur í æsku og litið er til baka á unglingsár þeirra. Þar segist Kristín hafa sótt innblástur í sinn eigin reynslubanka.

„Ég sjálf var bara rosa vandræðaunglingur á þessum tíma og þar sem er komið þarna inn á einhverjar unglingstilfinningar, það er bara allt bara minn reynsluheimur. Þannig þetta er mjög persónulegt verk og mér fannst mjög erfitt að heyra talað um þetta eins og ég hefði bara verið með eitthvað í huganum.“

Ákveðnar breytingar eiga sér þó stað þegar handrit verður að leikriti og leikstjóri tekur við keflinu.

„Þetta er náttúrlega leikhús. Þetta er samstarf og það er vert að taka fram að sýningin sjálf er náttúrlega ólík leikriti sem er annað hvort lesið upp eða á bók. Það er svo margt sem kemur inn í, bæði frá leikstjóra og frá sviðshönnuði og leikurum. Það er alls konar sem kemur inn í sýninguna.“

Þáttaröðin Systrabönd var frumsýnd á Sjónvarpi Símans síðasta vor. Kristín heyrði af söguþræði þáttanna og segist hafa sett sig í samband við framleiðendur mánuði áður en þættirnir voru frumsýndir.

„Þau vissu alveg af mínum áhyggjum og ekkert af þeim hringdi í mig. Ekkert af þeim talaði við mig. Það var bara forstjóri Saga Film og lögfræðingurinn hans, ég var sett beint í samband við þá. Ég talaði í rauninni aldrei við kollega mína sem mér finnst bara að hefðu alveg mátt tékka á mér.“

Þrátt fyrir að þau sem komu að gerð Systrabanda séu ekki nánir vinir Kristínar, segir hún þetta vera lítinn bransa og atvikið því afskaplega leiðinlegt. Þegar þættirnir voru frumsýndir hafi hún fengið símtöl frá aðstandendum sem voru undrandi, ásamt því að fólk ræddi líkindin á samfélagsmiðlum.

„Maður tekur ekki bara eitthvað, það er svo ruddalegt“
„Frænka mín hringdi í mig og sagði mér frá þessu. Pabbi sá þetta og var hissa að ég hefði ekki sagt honum frá því að það væri búið að gera þessa þætti.“

Líkindi mátti finna í efnistökum, söguþræði og uppleggi. Þá segir Kristín að ásamt þessu hafi hin ýmsu smáatriði verið eins.

„Ef þú ætlar að gera sjónvarpsþætti byggða á einhverju máli, þá bara verður maður að fá leyfi. Maður tekur ekki bara eitthvað, það er svo ruddalegt eitthvað.“

Þess má geta að þegar History var í sýningu í Borgarleikhúsinu árið 2015, var Jóhann Ævar Grímsson, einn handrithöfunda Systrabanda, með aðra sýningu í gangi í sama leikhúsi. Kristín segir leikrit sitt því hafa verið honum sérstaklega aðgengilegt á þessum tíma.

Jóhann Ævar hefur þó greint frá því í viðtölum að hann hafi fengið hugmyndina að Systraböndum árið 2014. Kristín segir það skrítið hve mikið Jóhann hafi tönglast á því að hafa fengið hugmyndina áður.

„Málið er að ég er að segja ykkur frá bók sem ég er að skrifa núna og ef einhver höfundur á Íslandi gefur út bók sem kemur út núna fyrir jólin sem er bara um nákvæmlega það sama, þá er ég bara í vondum málum. Þá þarf ég bara að breyta henni eða gera eitthvað annað … Þetta er hart sko.“

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR