„Alveg ágætis gamanmynd sem rennur út í heldur ódýrar lausnir,“ segir Þórarinn Þórarinsson meðal annars í Fréttablaðinu um Saumaklúbbinn eftir Göggu Jónsdóttur.
Þórarinn skrifar:
Athafnakonan, heildsalinn og Instagram-áhrifavaldurinn Íris unir hag sínum vel í algleymi yfirborðsmennskunnar með snjallsímann stöðugt á lofti til þess að halda því nú vandlega til haga hversu geggjuð tilvera hennar er.
Hún er líka prímusmótorinn í saumaklúbbi menntaskólavinkvennanna sem halda enn hópinn þótt merkilega grunnt sé á því góða milli ólíkra vinkvennanna sem eru misvel eða illa staddar í lífinu eftir þrjá áratugi.
Á yfirborðinu er samt allt slétt og fellt en undir niðri malla gremja, öfund og alls konar pirringur sem koma þó ekki í veg fyrir að hinar þrjár, gleymda söngkonan Ella, ferkantaði stílistinn Eydís og kvíðna og átakafælna leikskólastýran Steingerður láta Írisi draga sig í slökunar- og skemmtiferð í nýja sumarbústaðinn hennar. Fimmta hjólið undir þessari gleðilest sem brunar drekkhlaðin áfengi út í sveit er svo sjálfshjálpargúrú Írisar og viðskiptafélagi í áhrifavaldabransanum, heilunarhippinn Sif.
Betri getur tíðin ekki orðið …
Sumarbústaðaferð saumaklúbbs kvenna á besta aldri með ýmsar gamlar syndir og óuppgerð mál í skottinu er upplögð umgjörð fyrir léttleikandi gamanmynd eins og Saumaklúbbinn. Ekki síst þegar Ragga Gísla og Stuðmenn gefa tóninn og brunað er út úr bænum með Bráðum kemur ekki betri tíð á fullu blasti.
Því betri getur tíðin, því betri getur tíðin ekki orðið. Eða því sem næst, því þótt ferðin gefi ýmis fyrirheit eru holur og brekkur á leiðinni þannig að myndin hefði hæglega getað endað alveg úti í móa ef jafn öflugra og skemmtilegra leikkvenna og Eddu Bjargar, Arndísar Hrannar, Elmu Lísu, Jóhönnu Vigdísar og Helgu Brögu nyti ekki við, til þess að gæða mátulega klikkað persónugalleríið lífi og fleyta brokkgengri sögunni yfir erfiðustu kaflana.
Fimm fræknar
Jóhanna Vigdís smellpassar í hlutverk Írisar sem heldur sundurleitum vinkonuhópnum saman um leið og hún gætir þess vandlega að hún er aðal og sú eina sem hefur tekist að láta samfélagsmiðladrauminn um fullkomið líf rætast.
Edda Björg hefur, eins og alltaf, ekkert fyrir því að vera fyndin, án þess þó að slíta tragíska taugina í fiðrildinu Ellu sem hefur alltaf haft smekk fyrir eldri mönnum og situr því uppi með örvasa gamalmenni þar sem hápunktur hjónalífsins er að horfa saman á Barnaby ráða gátuna.
Arndís Hrönn Egilsdóttir hefur verið á háflugi síðan hún brilleraði í Héraðinu fyrir örfáum árum og gerir hér leikskólakennaranum Steingerði, sem er að bugast á kaótískri tilverunni, átakanlega fyndin skil.
Tildurrófan Eydís, sem hinum vinkonunum reynist sérlega auðvelt að láta stuða sig, er svo líklega erfiðasta persónan í Saumaklúbbnum. Hún er líka ekki öll þar sem hún er séð í kuldalegri tilgerðinni sem hún flýtur á í krafti þess búa í Mílanó og að hafa helgað líf sitt tískubransanum.
Persóna Eydísar er dálítið á skjön við hinar, þar sem hún á hvorki mikla samúð inni hjá vinkonunum né áhorfendum en Elma Lísa situr svo vel í hlutverkinu að henni tekst að gera Eydísi óþolandi, fyndna og sorglega í senn og meira að segja vekja samúð með henni, þrátt fyrir að handritið og persónusköpunin vinni beinlínis gegn því.
Kynjað klisjugrín
Saumaklúbburinn er náskyld karl¬pungamyndinni Síðasta veiðiferðin, sem sló verðskuldað í gegn í fyrra. Framleiðendurnir eru þeir sömu og því um einhvers konar systurmynd að ræða og margt er líkt með skyldum.
Báðar eru þær einfaldar gamanmyndir sem gera út á kómíkina í kynjuðum klisjum án þess að taka sig of hátíðlega og báðar hvíla þær fyrst og fremst á þéttum og samstilltum hópi leikara annars vegar og öndvegis leikkvenna hins vegar.
Belgingur, stærilæti og eitruð karlmennska buðu upp á heilmikið húllumhæ og gráglettið grín í Síðustu veiðiferðinni og ætla mætti að klisjukenndar kvennakrísur væru jafnvel enn safaríkari uppspretta aðhlátursefnis með nettum ádeilubroddi.
Slík er enda raunin framan af og Saumaklúbburinn fer hressilega af stað á meðan persónunum er stillt upp og grínið er dýpkað með heimildamyndalegum einræðum persónanna sem skerpa átakalínurnar milli vinkvennanna og rétt eins og hjá körlunum í fyrra þolir vinkonu¬hópurinn illa áfengismengaða nándina í sumarbústaðnum þannig að gömul sár ýfast upp og draugar fortíðar ríða húsum þannig að hriktir í stoðum saumaklúbbsins.
Brokkgengt flipp
Eftir vel heppnað miðaldrahrútagrín Síðustu veiðiferðarinnar er bæði borðleggjandi og frábær hugmynd að endurtaka leikinn með konum í alls konar krísum. Því miður virðist þó hafa verið lagt upp í þessa sumarbústaðaferð af öllu meira kappi en forsjá þar sem handritið er veikasti hlekkurinn.
Saumaklúbburinn er því fyrst og fremst leikkonurnar og líður helst fyrir handahófskennda og köflótta atburðarás þótt stelpurnar séu í banastuði og flippið á köflum bráðfyndið og sniðugt.Eftir góða byrjun tvístrast lausbeisluð sagan í alls konar áttir sem vekja fleiri spurningar en svör þar sem sú stærsta er í raun hvers vegna í ósköpunum þessar ólíku konur hafa haldið saman í gegnum öll þessi ár, þrátt fyrir að því er virðist djúpstæða andúð ef ekki beinlínis illvilja í garð hverrar annarrar?
Þó er rétt að halda því vandlega til haga að hláturinn í salnum mældist yfir meðallagi og Saumaklúbburinn er í raun alveg ágætis gamanmynd sem rennur út í heldur ódýrar lausnir og sveppahalasósu með tilheyrandi tómleikatilfinningu og grun um að fín hugmynd hefði getað orðið miklum mun betri með aðeins meira nostri við söguþráð og persónusköpun. n
Niðurstaða: Úrvalsleikkonur í góðum gríngír taka hressilega spretti í rótlausri gamanmynd sem dugir þó því miður ekki til þess að Saumaklúbburinn haldi dampi alla leið og í lokin klæjar svolítið undan tilfinningunni að góð hugmynd hefði getað orðið mun betri.