Dagur Kári um húmor og sársauka í nýrri þáttaröð hans fyrir HBO, VELKOMMEN TIL UTMARK

Dagur Kári er í viðtali við Menninguna á RÚV um hina nýju HBO þáttaröð hans Velkommen til Utmark (Wilderness).

Á vef RÚV segir:

„Það er mikill húmor í þessu en jafnframt mannlegur sársauki. kannski sá kokteill sem ég hef alltaf unnið með í ólíkum varíasjónum.“ Þannig lýsir Dagur Kári nýjasta leikstjórnarverkefni sínu, Velkommen til Utmark, sem framleidd er fyrir HBO í Evrópu.
Serían var frumsýnd á dögunum en hún nefnist Wilderness upp á ensku. Höfundur hennar er Daninn Kim Fupz Aakeson. Wilderness gerist í norskum smábæ og minnir um margt á Fargo og Twin Peaks. Degi Kára leist vel á verkefnið frá fyrstu stundu. „Ég las handritin og fannst þau ótrúlega skemmtileg þannig að ég ákvað að slá til. Mig langaði líka að prófa að leikstýra heilu season-i. Þetta er náttúrulega ansi stór biti, eru eins og 4 bíómyndir í beit,“ segir hann um aðdragandann.

Portrett af samfélagi
Karakterróf seríunnar er fjölbreytt að sögn Dags Kára. „Þessi sería á að gerast einhvers staðar lengst úti í rassgati í Noregi. Hryggjarstykkið í sögunni eru átök milli tveggja bænda. Annars vegar sauðfjárbóndi og hins vegar hreindýrabóndi af samískum uppruna. Átökin stigmagnast og við kynnumst öðrum persónum í þessu samfélagi, átakafælnum lögreglustjóra, presti sem er ekki á góðum stað í lífinu og aðkomumanneskju sem er kennslukona sem er nýkomin á svæðið. Þetta er eins konar portrett af þessu samfélagi, á einhvern hátt staður sem guð hefur gleymt.“

100 tökudagar
Með aðalhlutverk fara Marius Lien og May Linda Kosumovic. Serían var tekin upp 2019-20. „Tökur fóru fram í mestu leyti í kringum Osló en þetta á að gerast miklu norðar. Við vorum í einhverjar 6 vikur í kringum Røros í Noregi. Við vorum orðin eins og vel smurð vél. Þetta voru 100 tökudagar og á degi 100 leið mér eins og ég gæti léttilega tekið 100 í viðbót, þetta var einhvern veginn komið á einhvern skrið. Það var rosalega gaman að upplifa það því að starf leikstjórans er dálítið sérstakt, jafnvel þó það gangi vel þá er algengt að líði 3, 4, 5 ár milli bíómynda þannig að maður er í rauninni kannski bara í vinnunni í 30 daga á 4 ára fresti,“ segir Dagur Kári.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR