Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur verður frumsýnd í Senubíóunum þann 7. maí næstkomandi. Stikla og plakat myndarinnar hafa verið opinberuð.
(Upphaflega stóð til að frumsýna 31. mars en því varð að fresta vegna samkomutakmarkana).
Þetta er þriðja bíómynd Kristínar, en hún sendi frá sér Á hjara veraldar 1983 og Svo á jörðu sem á himni 1992. Kristín hefur einnig gert nokkrar sjónvarpsmyndir og leikstýrt fjölda leikrita í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víðar.
Ölmu hefur lengi verið beðið. Tökur fóru fram að miklu leyti árið 2016, en lauk 2018.
Þetta er örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprelllifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.
Kristín skrifar handrit og leikstýrir. Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Egil Ødegård framleiða. Með helstu hlutverk fara Snæfríður Ingvarsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Emmanuelle Riva og Hilmir Snær Guðnason.
Emmanuelle Riva var ein af kunnustu leikkonum Frakka í um sex áratugi. Hún varð fyrst kunn fyrir hlutverk sitt í mynd Alan Resnais Hiroshima mon amour (1959) en myndin er eitt af lykilverkum kvikmyndasögunnar. Þetta var hennar fyrsta kvikmynd, en þess má geta að fyrsta kvikmynd Kristbjargar Kjeld var 79 af stöðinni sem kom út 1962.
Síðar hlaut Riva tilnefningu til Óskarsverðlauna, BAFTA verðlaun og César verðlaunin frönsku fyrir leik sinni í Amour (2012) eftir Michael Haneke. Riva lést í ársbyrjun 2017, um ári eftir að tökum á Ölmu lauk á Íslandi. Þetta var því hennar síðasta mynd.
Meðframleiðendur eru Anna G. Magnúsdóttir, Ilann Girard og Jim Stark. Ita Zbroniec-Zajt sér um kvikmyndatöku, en hún myndaði einnig Andið eðlilega eftir Ísold Uggadóttur.
Marteinn Þórsson, Gunnar Carlsson, Eggert Baldvinsson, Máni Hrafnsson og Einar Baldvin Arason klipptu, en Ingvar Lundberg og Øistein Boassen sáu um hljóð.
Tónlist gerir Högni Egilsson. Litgreiningu annast Eggert Baldvinsson og Þórunn María Jónsdóttir gerir búninga. Stígur Steinþórsson er listrænn stjórnandi leikmyndar og Sigríður Rósa Bjarnadóttir sér um gervi.
Ungverski leikmyndahönnuðurinn Lázlo Rajk hannaði leikmynd, en hann vann einnig meðal annars leikmyndina í kvikmyndinni Son of Saul sem hlaut Óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin 2016. Rajk átti stórmerkan feril sem andófsmaður og stjórnmálamaður auk þess að gegna prófessorsstöðu við Kvikmynda- og leikhúsháskólann í Búdapest. Hann lést 2019.