Teiknimyndin JÁ-FÓLKIÐ tilnefnd til Óskarsverðlauna

Já-fólkið, teiknimynd Gísla Darra Halldórssonar, er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár.

Fjallað er um þetta á vef RÚV:

Já-fólkið er tilnefnd til verðlaunanna í flokki styttri teiknimynda. Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz.

Myndin fjallar um íbúa í ónefndri blokk. Fólkinu er fylgt eftir í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Myndinni er lýst sem gamansamri, hálf-þögulli teiknimynd um fjötra vanans. Einungis eitt orð kemur fyrir í henni, það er orðið „já“ sem er endurtekið í ýmsum blæbrigðum.

Rætt var við Gísla Darra í Lestinni á Rás 1 þegar ljóst var að teiknimyndin var í forvali tilnefndra mynda. „Þegar ég var að byrja á þessari mynd var ég með hóp af hugmyndum sem ég var heltekinn af. Ég upplifði þetta ferli eins og ég væri smali að reyna að koma rollum heim. Þær virtust á yfirborðinu ekki tengjast og eitt af því fyrsta sem kom upp á yfirborðið var sjálfskapaður frasi sem ég var óskaplega stoltur af,“ sagði hann í kaldhæðni. „Röddin er ríkari en orðið. Það var byrjunin.“

Óskarsverðlaunin verða afhent 25. apríl.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR