Já-fólkið, teiknimynd Gísla Darra Halldórssonar, er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár.
Fjallað er um þetta á vef RÚV:
Já-fólkið er tilnefnd til verðlaunanna í flokki styttri teiknimynda. Gísli Darri Halldórsson leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni og framleiðendur eru Arnar Gunnarsson og Gísli Darri fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz.
Myndin fjallar um íbúa í ónefndri blokk. Fólkinu er fylgt eftir í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmunstur hvers og eins að kristalla persónurnar (dugnaður, leti, fíkn og ástríða). Myndinni er lýst sem gamansamri, hálf-þögulli teiknimynd um fjötra vanans. Einungis eitt orð kemur fyrir í henni, það er orðið „já“ sem er endurtekið í ýmsum blæbrigðum.
Rætt var við Gísla Darra í Lestinni á Rás 1 þegar ljóst var að teiknimyndin var í forvali tilnefndra mynda. „Þegar ég var að byrja á þessari mynd var ég með hóp af hugmyndum sem ég var heltekinn af. Ég upplifði þetta ferli eins og ég væri smali að reyna að koma rollum heim. Þær virtust á yfirborðinu ekki tengjast og eitt af því fyrsta sem kom upp á yfirborðið var sjálfskapaður frasi sem ég var óskaplega stoltur af,“ sagði hann í kaldhæðni. „Röddin er ríkari en orðið. Það var byrjunin.“
Óskarsverðlaunin verða afhent 25. apríl.