ÍSLAND: BÍÓLAND og hin langa fæðing íslenskra kvikmynda

Fyrsti þáttur Íslands: bíólands kallast Löng fæðing og er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 20:20. Hann er helgaður þeim kvikmyndum sem gerðar voru frá upphafi tuttugustu aldar fram til loka sjötta áratugarins.

Þarna má finna löngun til að takast á við hið nýja tjáningarform, kvikmyndina, af bjartsýni og áræði en einnig erfiðar aðstæður og brostna drauma.

Í þessum fyrsta þætti er fjallað um eftirfarandi kvikmyndir:

Síðasti bærinn í dalnum
Salka Valka
Islands Alting besög i Köbenhavn
Slökkviliðsæfing í Reykjavík
Kong Frederik VIII besöger Island
Fjalla-Eyvindur
Saga Borgarættarinnar
Ævintýri Jóns og Gvendar
Ísland í lifandi myndum
Niðursetningurinn
Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra
Alheimsmeistarinn
Björgunarafrekið við Látrabjarg
Ágirnd
Sveitin milli sanda
Reykjavík
Reykjavík vorra daga
Gilitrutt
Milli fjalls og fjöru
Eldur í Heklu 1947/8
Hadda Padda
Det sovende hus/Hús í svefni
Tunglið, tunglið taktu mig
Lýðveldisstofnunin
Nýtt hlutverk
Töfraflaskan

Við sögu koma meðal annars Peter Elfelt (konunglegur danskur hirðljósmyndari), Bíó Petersen og Alfred Lind, Victor Sjöström, Gunnar Sommerfeldt, Loftur Guðmundsson, Óskar Gíslason, Guðmundur Kamban, Ósvaldur og Vilhjálmur Knudsen, Svala Hannesdóttir, Ævar Kvaran, Ásgeir Long, Valgarð Runólfsson, Sven Nykvist og Arne Mattson.

Viðmælendur í þessum fyrsta þætti eru Björn Ægir Norðfjörð, Erlendur Sveinsson, Gunnar Tómas Kristófersson, Kristín Jóhannesdóttir, Oddný Sen, Sigríður Óskarsdóttir, Sigríður Pétursdóttir og Viðar Víkingsson. Þá eru þarna einnig eldri viðtöl við þá Óskar Gíslason, Vilhjálm Knudsen og Ævar Kvaran.

Ísland: bíóland er þáttaröð í tíu hlutum um sögu íslenskra kvikmynda frá byrjun tuttugustu aldar til og með 2019. Hver þáttur tekur ákveðið tímabil fyrir, þar sem fjallað er um kvikmyndir þess tíma og valdir kaflar sýndir úr þeim. Farið er yfir inntak þeirra, áherslur, nálgun og aðstæðurnar sem þær eru gerðar í.

Vel á annað hundrað viðmælendur koma fram í þáttunum – leikstjórar, framleiðendur, handritshöfundar, leikarar og aðrir kvikmyndagerðarmenn auk fjölmargra innlendra og erlendra kvikmyndasérfræðinga.

Ásgrímur Sverrisson leikstýrir þáttaröðinni, skrifar handrit og er þulur. Framleiðendur eru Guðbergur Davíðsson, Örn Marinó Arnarson og Þorkell Harðarson. Sunna Gunnlaugs semur tónlist, Konráð Gylfason sér um litgreiningu og samsetningu, Örn Marinó Arnason stjórnar kvikmyndatöku, Hallur Ingólfsson vinnur hljóð og Thank You gerir grafík.

Þættirnir eru framleiddir af Kvikmyndasögum ehf, en RÚV er meðframleiðandi. Þeir eru gerðir í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands. Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkir verkefnið sem og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri þessarar þáttaraðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR