Háskólayfirfærsla Kvikmyndaskóla Íslands í fullri vinnslu

Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands hefur sent frá sér aðra yfirlýsingu varðandi kvikmyndanám á haskólastigi þar sem segir meðal annars: „Samkvæmt fréttaflutningi RÚV og Listaháskóla Íslands má skilja að val hafi átt sér stað, við þá ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins heimila undirbúning samningagerðar við Listaháskólans um stofnun kvikmyndadeildar við skólann. Þetta er kynnt eins og úthlutun hafi átt sér stað eftir keppni. Þetta er misskilningur.“

Og áfram segir:

Í tilkynningum sem mennta- og menningamálaráðuneytið sendi frá sér til fjölmiðla, kemur skýrt fram að áform Listaháskólans hafi engin áhrif á framgang umsóknar Kvikmyndaskólans sem nú er í vinnslu í ráðuneytinu.

Kvikmyndaskóli Íslands, sem verður 30 ára á næsta ári, hóf starfsemi nú á vorönn 2021 sem háskóli í viðurkenningaferli, eftir að hafa allt síðasta ár unnið skipulagsbreytingum og gagnavinnslu vegna yfirfærslunnar. Skólinn fylgir ferli sem hófst með nýjum þjónustusamnings sem gerður var við skólann í júlí 2019. Þar komu fram áform Kvikmyndaskólans um háskólayfirfærslu. Í janúar 2020 var síðan lögð inn formleg umsókn til ráðuneytis. Alls koma um 80 manns að stjórnum, nefndum og ráðum skólans en formaður fagráðs, sem er væntanlegt háskólaráð, er Katrín Dóra Þorsteinsdóttir sem lengi var yfir fræðslumálunum hjá Samtökum iðnaðarins. Rektor er Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndaleikstjóri. Hægt er að kynna sér umsókn skólans á heimasíðu skólans www.kvikmyndaskoli.is.

Samkvæmt háskólalögum ber ráðherra að fá umsögn þriggja óháðra sérfræðinga áður en háskólaviðurkenning er veitt. Kvikmyndaskólinn hefur verið tilbúinn að taka á móti sérfræðingahópi síðan í september 2020. Áætlanir og óskir Kvikmyndaskólans til ráðuneytis er að sérfræðingarnir ljúki vinnu sinni ekki síðar en í júní næstkomandi, þannig að formleg viðurkenning geti legið fyrir eigi síðar en í upphafi haustannar. Ferillinn hefur þá tekið 24 mánuði í ráðuneytinu.

Hjá Kvikmyndaskóla Íslands er allt tilbúið; Einstakt háskólahúsnæði, fullur skóli af frábærum nemendum. Framúrskarandi kennara- og leiðbeinendahópur og þrauthönnuð kennsluskrá ásamt alþjóðlegum viðurkenningum. Ekki er óskað eftir auknum fjárveitingum vegna yfirfærslunnar. Það er mikill þrýstingur á stóraukið háskólanám í listum. Nemendur, kennarar og aðstandendur Kvikmyndaskóla Íslands hafa því fulla ástæðu til bjartsýni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR