Meðalkostnaður evrópskra kvikmynda
Gögnin sýna að meðalkostnaður evrópskrar kvikmyndar er tæpar 500 milljónir króna (3.16 milljónir evra), en miðgildið er um 300 milljónir króna (1.93 milljónir evra).
Í skýrslunni er bent á þau miklu áhrif sem frekar fáar dýrar kvikmyndir hafa á útreikninga meðalkostnaðar og því gefi miðgildið (talan í miðju allra gagna) betri hugmynd um dæmigerðan kostnað flestra evrópskra mynda.
Meðalkostnaður er mjög mismunandi eftir löndum. Ekki þarf að koma á óvart að meðalkostnaður er hærri í fjölmennari löndum og lægri í fámennari löndum, þar sem dreifing í heimalandi er undirstaða fjármögnunar flestra myndanna.
Miðgildi kostnaðar bíómynda í stærstu löndunum – Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Bretlandi – er um 436 milljónir króna (2.8 milljónir evra), samanborið við 265 milljónir króna (1.7 milljón evra) í meðalstórum löndum og um 187 milljónir króna (1.2 milljónir evra) í smærri löndum.
Gögnin sýna einnig að alþjóðleg samframleiðsla hefur úr meiri fé að spila en myndir sem eingöngu eru fjármagnaðar á heimamarkaði og getur munað þar vel yfir hundrað milljónum króna.
Ítarleg gögn um íslenskar kvikmyndir skortir en telja má að meðalkostnaður liggi einhversstaðar á milli lægstu og næstlægstu talnanna, enda samframleiðsla mjög algengt fjármögnunarmódel íslenskra kvikmynda.
Hvaðan kemur fjármagnið?
Ekki kemur á óvart að fjármögnun evrópskra kvikmynda byggir að mestu á opinberri fjárfestingu (kvikmyndasjóðir), fjárfestingu sjónvarpsstöðva, fjárfestingu framleiðenda, forsölum og ívilnunum (til dæmis endurgreiðslu).
Svona skiptist uppruni fjármögnunar að meðaltali (í eftirfarandi upptalningu er Frakkland tekið út fyrir sviga, en þar taka sjónvarpsstöðvar afar virkan þátt í fjármögnun kvikmynda):
Opinber fjárfesting (kvikmyndasjóðir): 36%
Forsölur: 18%
Fjárfesting framleiðenda: 16%
Ívilnanir (endurgreiðslur og fleira): 11%
Fjárfesting sjónvarpsstöðva: 10%
Annað: 9%
Töluverður munur er á milli landa hvað varðar uppruna fjármögnunar og felst munurinn meðal annars í stærð viðkomandi heimamarkaðar. Gögnin sýna glögglega að mikilvægi sjóðakerfisins eykst eftir því sem markaðirnir eru minni og ná allt að 54% í smærri löndunum.
Vægi forsölu eykst hinsvegar með stærð markaða þar sem slíkt fjármagn nemur allt að 26%, en fer niður í 8% á smærri mörkuðum.
Skýrsluna má skoða hér (pdf): FINANCING 2020 – Draft