Sýningar hefjast í dag á frumraun Ólafar Birnu Torfadóttur, Hvernig á að vera klassa drusla. Upphaflega stóð til að myndin kæmi út fyrir ári síðan, en sökum faraldursins var frumsýningu frestað ítrekað. Fréttablaðið ræddi við Ólöfu um verkið.
Á vef Fréttablaðsins segir:
Kvikmyndin Hvernig skal vera klassa drusla verður frumsýnd í kvöld, en leikstjóri hennar og handritshöfundur er kvikmyndagerðarkonan Ólöf Birna Torfadóttir. Þetta er hennar fyrsta kvikmynd í fullri lengd en áður hefur hún gert stuttmyndir við góðan orðstír.
„Mig dreymdi alltaf um að verða leikkona þegar ég var yngri og reyndi að taka þátt í öllu sem því tengist í gegnum grunn- og framhaldsskóla. Síðan fór ég að læra förðun og „special effects“-förðun. Í kjölfarið fór ég að farða fyrir stuttmyndir og tónlistarmyndbönd. Þá áttaði ég mig á því að mig langaði að gera mínar eigin kvikmyndir og fór því í handrita- og leikstjórnarnám í Kvikmyndaskólanum,“ segir Ólöf Birna.
Sagan byrjaði að flæða
Ólöf fékk hugmyndina að handritinu sumarið 2015 þegar hún var að vinna hjá Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli.
„Þetta var mikil vinna við færibandið og mig dagdreymdi þess vegna mikið. Fyrst kom hugmynd að karakterunum, Karenu og Tönju. Ætli ég hafi ekki að að hluta byggt þetta á sjálfri mér en ég held að flestir kannist við þessar týpur. Segjum til dæmis að þú sért á leiðinni í partí og ætlar að vera töff og sjálfsörugg, slá í gegn. Þannig er Karen. Svo lendir maður oft í því að vera of meðvitaður og feiminn eins og Tanja. Um leið og karakterarnir voru komnir þá byrjaði sagan að flæða,“ segir hún um aðalpersónur myndarinnar.
Myndin fjallar um vinkonurnar Karenu og Tönju sem fara saman út á land yfir sumarið til að vinna á stóru sveitabýli.
„Karen er mjög lífsreynd og mikil sveitastelpa á meðan Tanja hefur varla farið út fyrir Reykjavík og er frekar feimin og lítil í sér. Það byrjar erfiðlega hjá Tönju en síðan fær hún nóg af því að vera höfð að fífli og biður þess vegna Karenu að kenna sér hvernig á vera meira eins og hún, sjálfsörugg og frökk. Hún biður hana sem sagt um að kenna sér hvernig á að vera klassa drusla.“
Alveg í skýjunum
Fyrirhugað var að frumsýna myndina 3. apríl í fyrra en heimsfaraldurinn olli því að beðið var með sýningar á henni þar til nú.
„Við tókum myndina upp sumarið 2019, fengum besta sumar sem hægt var að hugsa sér fyrir svona tökur. Ótrúlega sólríkt og flott veður allan tímann. Tökurnar gengu mjög vel. Þegar við ætluðum að frumsýna í apríl 2020 var öllu lokað út af COVID. Þá stefndum við á að frumsýna hana á nýrri dagsetningu í ágúst 2020. Allt blossar upp aftur rétt eftir verslunarmannahelgina, þannig að aftur var henni frestað fram í október 2020. Þá kemur þriðja, stærsta og versta bylgjan af COVID, svo að við þurftum að fresta enn og aftur.“
Þetta er því fjórða dagsetningin sem er sett á frumsýninguna.
„Ég er alveg í skýjunum með þetta og var fyrst ekki að meðtaka að þetta væri að loksins að fara að gerast. Ég er ótrúlega spennt fyrir frumsýningunni, spennt að heyra viðbrögðin og hlakka til að myndin sé loksins komin í bíó,“ segir hún.
Einvalalið leikara
Ylfa Marín Haraldsdóttir og Ásta Júlía Elíasdóttir leika aðalhlutverk myndarinnar.
„Þær hafa mikið unnið í kvikmyndageiranum, en ekki einungis við leik þótt þær séu báðar menntaðar leikkonur. Þær voru báðar til dæmis með lítil hlutverk í myndinni Síðasta veiðiferðin. Klassa druslur er fyrsta bíómyndin sem þær leika aðalhlutverk í. Ylfa Marín leikur Tönju, Ásta Júlía leikur Karenu og þær fara ótrúlega vel með hlutverkin sín. Get ekki séð neinar aðrar fyrir mér í þessum hlutverkum. Svo eru þær líka svo skemmtilegar grínleikkonur. Þær tóku þessa karaktera og gerðu þá raunverulegri og betri en ég hefði getað vonað,“ segir hún.
Þau Þorsteinn Bachmann, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir fara líka með hlutverk í myndinni.
„Það var ekkert mál að fá þau með okkur í þetta. Steinunn leikur stærsta hlutverkið af þeim, hana Bjarneyju bónda sem á sveitabæinn sem stelpurnar vinna á. Ég sendi henni tölvupóst þar sem ég kynnti mig og myndina. Síðan sendi ég henni handritið og hún var meira en til í þetta. Það var magnað að horfa á Steinunni leika, mér fannst andlitið á henni breytast fyrir framan tökuvélina í þennan lifaða roskna bónda sem Bjarney er. Þau þrjú eru með töluverða reynslu af setti og leik. Það var mjög áhugavert og fræðandi fyrir mig að fylgjast með þeim og fá tækifæri til að leikstýra þeim,“ segi Ólöf.
Það er nóg að gera hjá Ólöfu sem er strax farin að vinna að næstu mynd.
„Ég er að vinna í nokkrum handritum núna, meðal annars annarri bíómynd sem ég er mjög spennt fyrir. Síðan er ég líka með nokkrar þáttaraðir í bígerð. Það kemur allt mögulega betur í ljós næsta sumar.“