Heimildamynd Jóhanns Jóhannssonar heitins, Last and First Men, verður tekin til sýninga í Bíó Paradís 22. janúar. Myndin var frumsýnd á Berlínarhátíðinni fyrir ári og vakti mikla athygli. Hún var einnig sýnd á Skjaldborgarhátíðinni síðastliðið haust.
Tvær billjónir ára í framtíðinni stendur mannkynið frammi fyrir yfirvofandi útrýmingu. Stakir og súrrealískir minnisvarðar eru nánast það eina sem stendur eftir og varpa skilaboðum sínum inn í öræfin.
Í myndinni flökkum við um svæði í niðurníðslu þar sem sorglegir atburðir hafa gerst – staðir hlaðnir táknrænni merkingu. Í gegnum myndina skynjum við nærveru, einhverskonar vitund sem er að reyna að hafa samband við okkur.