Íslendingar að verða undir í samkeppni um þjónustuverkefni

Leifur B. Dagfinnsson hjá Truenorth segir í viðtali við Fréttablaðið að mörg stór verkefni hafi runnið Íslandi úr greipum undanfarið og að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar til þess að tryggja samkeppnishæfni landsins. Íslendingar séu að verða undir í alþjóðlegri samkeppni um stór kvikmyndaverkefni út af lágri endurgreiðslu íslenskra stjórnvalda til kvikmyndaframleiðenda.

Í frétt Fréttablaðins er lagt út af kvikmyndinni The North­man sem byggð er á handriti leikstjórans Roberts Eggers og Sjóns:

Sögusvið myndarinnar er Ísland á 10. öld og er um að ræða blóðuga hefndarsögu. Það vekur hins vegar nokkra athygli að þrátt fyrir að stærstu hluti sögunnar gerist á Íslandi verður myndin tekin upp á Írlandi.

„Þetta er ekki fyrsta slíka verkefnið sem við missum af. Nærtækt dæmi er til dæmis Eurovision-mynd Netflix en um fimm prósent þess verkefnis voru tekin upp hérlendis. Við hefðum auðveldlega getað tekið nánast alla myndina upp hér ef við værum samkeppnishæf með endurgreiðsluna.“

Í dag er endurgreiðsla vegna kvikmyndaverkefna hérlendis 25 prósent en til samanburðar býður Írland upp á 32 til 37 prósenta endurgreiðslu, eftir því hvar á landinu myndin er tekin upp. Endurgreiðslan er hærri ef tekið er upp í tilteknum sýslum Írlands sem þurfa meira á umsvifunum að halda.

Að sögn Leifs er það þó ekki aðeins hærri endurgreiðsla sem þörf er á heldur þarf einnig að ráðast í fjárfestingar á almennilegu kvikmyndaveri. Þetta tvennt haldist þó í hendur.

„Framleiðendur mynda vilja helst reyna að klára sem mest á sama stað, sérstaklega á tímum COVID-19. Við höfum þekkingu starfsfólks og ótrúlega fjölbreytta tökustaði í íslenskri náttúru. Að því gefnu að endurgreiðslan verði hækkuð þá vantar okkur aðeins fjölnota kvikmyndaver með stúdíóum í nokkrum stærðum. Aðstaða RVK Studios í Gufunesi er góð en þar er bara einn stór geimur í boði sem takmarkar aðeins möguleikana,“ segir Leifur.

Mikill áhugi fjárfesta á þátttöku

Hann segir að mikill áhugi sé meðal fjárfesta á þátttöku í slíku verkefni og að hugmyndavinna hafi staðið yfir um nokkurt skeið. Forsendurnar fyrir slíku verkefni séu hins vegar ekki til staðar nema að endurgreiðslan verði hækkuð. „Það er setið um tíma í kvikmyndaverum um allan heim og við einfaldlega vitum að aðstæður á Íslandi fyrir slíka starfsemi eru einstakar. Þrátt fyrir sömu endurgreiðslu og til dæmis á Írlandi þá yrði dýrara að taka upp hér. Aðrir kostir eru þó það miklir að þeir vega það upp,“ segir Leifur.

Nefnir hann sem dæmi að á Írlandi hafi verið farin afar áhugaverð leið til þess að tryggja að annað risaverkefni yrði tekið upp þar í landi, sjónvarpsþættirnir The Foundation fyrir Apple TV+. „Þar var farin sú leið að fá framleiðendurna í lið með sér til að byggja heilt kvikmyndaver nærri borginni Limerick á Vestur-Írlandi. Þættirnir verða því teknir upp þar og framhaldsseríur en síðan mun kvikmyndaverið þjóna margvíslegum verkefnum í framtíðinni,“ segir Leifur.

Hann segist eiga bágt með að skilja tregðu íslenskra stjórnvalda til þess að bregðast við og gera íslenskum kvikmyndaiðnaði kleift að verða samkeppnishæfur við iðnað annarra landa.

Geta slegið þrjár flugur

„Nokkur af þeim vandamálum sem stjórnvöld glíma við er atvinnuleysið og verkefnaleysi íslenskrar ferðaþjónustu en á sama tíma eru stjórnvöld að dæla peningum í markaðsstarf fyrir Ísland. Með því að hækka endurgreiðslu til kvikmyndaverkefna eru þrjár flugur slegnar í einu höggi. Hund­ruð fá atvinnu, hótel, veitingastaðir og bílaleigur fá viðskipti og staðreyndin er sú að meirihluti ferðamanna kaupir sér ferðir út af innblæstri sem það fær í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, segir Leifur og bætir við:

„Mér skilst til dæmis að markaðsleg áhrif Euro­vison-myndar Netflix fyrir Húsavík hafi verið metin á fimm milljarða. Endurgreiðsla ríkisins var 135 milljónir króna,“ segir Leifur.

Það sé síðan rúsínan í pylsuendanum að hækkun endurgreiðslunnar kosti ekkert fyrr en verkefnin séu afstaðin. „Ríkið þarf augljóslega aðeins að endurgreiða upphæðirnar ef við náum að tryggja tökur á verkefnum hér heima. Þegar kemur að skuldadögum ríkisins þá er fjármagnið búið að renna í gegnum íslenskt hagkerfi og vökva það og næra.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR