RÁÐHERRANN, þáttur 6: Íslenski draumurinn: Að fúnkera aðeins of vel

Ásgeir H. Ingólfsson fjallar um sjötta þátt Ráðherrans á vef sínum Menningarsmygl.

Ásgeir skrifar:

Það verður sífellt sjaldgæfara að stór hluti fólks horfi á sama sjónvarpsefnið samtímis eða með örstuttu millibili – en það gerist nú samt. Og kannski einmitt það er sportið við efni eins og Eurovision, Ófærð og Ráðherrann – oft frekar en gæði efnisins. Þessi stemning er lífæð línulegrar dagskrár, sem þýðir líklega að hún gæti enst miklu lengur en sumir spá.

Samfélagsmiðlar spila nefnilega miklu betur með línulegri dagskrá en ólínulegu glápi – ef þú ert ekki að glápa í takt ertu bara að fara að tala inní tómið þar. Einmitt þess vegna er lykilatriði í rýni á þættina að skoða aðeins viðtökusögu þeirra jafnóðum.

Og það voru ákveðin vatnaskil með sjötta þætti Ráðherrans, þegar Facebook-umræðan var kembd. Þetta var þátturinn sem hann steig skrefið alla leið inní geðveikina – og þetta var líka augnablikið þegar maður hætti að mestu að sjá vinstrimenn kvarta yfir að Sjálfstæðisflokkurinn væri fegraður og maður fór frekar að sjá Sjálfstæðismenn kvarta undan áróðri og óhróðri gegn flokknum. Sem dæmi lýsir Bjarni Theódór Bjarnason, fyrrum bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, þáttunum með þessum orðum:

„Efnistök og skírskotanir eru ekki nærri raunveruleikanum að mínu mati og að mínu viti. Það byggi ég á reynslu minni af íslensku stjórnkerfi. Það er vinstri slagsíða á þáttunum og lítið gert úr kristindóminum. Það er ljóður á íslenskum handritshöfundum að þurfa sífellt að læða að sinni vinstripólitík. Nútíma vinstripólitík snýst orðið um það að mála myrkum litum það lýðræðislega kerfi sem við lifum í.

[…]

Vinstrimenn eru klókir. Þegar marxisminn varð að skömm eftir fall Berlínarmúrsins þá byrjuðu vinstrimenn að beita nútíma meðulum til að hatast út í vestrænt lýðræði. Framleiðsla þáttanna “Ráðherrann” er eitt af mýmörgum dæmum um þetta😉

Þorvaldur Gylfason hagfræðingur svarar svipuðum hugleiðingum á sama þræði og segir: „Áróður? Nei, þvert á móti raunsæ, sannferðug og löngu tímabær lýsing sem hittir fyrir ekki bara flokkinn sem þú nefnir, heldur allt batteríið eins og það leggur sig.“ Hann gagnrýnir þó aðeins hvernig geðsjúkdómurinn kemur fram – sem verður sannarlega problematískara með hverjum þætti.

Geðveiki í skáldskap er hins vegar ansi flókið umfjöllunarefni. Hún getur haldið sig við að spegla læknisfræðilegar niðurstöður rannsókna – en hún getur líka snúist um það að afhjúpa veruleikann með augum þeirra sem eru úr sambandi við hann. Eitthvað sem skáld með geðsjúkdóma, greinda og ekki, hafa tekið þátt í að gera í gegnum tíðina.

Þess vegna sjáum við pólitíkus sem gengur ítrekað gegn gildum flokks síns, án umræðu, án þess að reyna að sannfæra, einfaldlega af því hann sér það sem flestir utan flokks (eða utan samfélagsins jafnvel) myndu sjá; það virðist borðleggjandi að leyfa flóttafólki að vera, að aðskilja ríki og kirkju og að taka upp evru.

Þótt Benedikt sé upptekinn við að skrifa leikrit þá er kaldhæðni örlaganna sú að hann er löngu hættur að taka þátt í leikritinu sem ætlast er til að hann leiki aðalhlurverkið í. Það leikrit er stundum kallað að fúnkera – sem oft getur verið hið besta mál, en það að fúnkera er ekkert endilega æskilegt þegar andrúmsloftið verður eitrað.

Gunnar Smári Egilsson telur Ráðherrann í raun setja núverandi stjórnarsamstarf á hvolf:

„Ég hef aðeins horft á Ráðherrann og er helst á því að þetta sé þáttur um Katrínu Jakobsdóttur, svona fyrir utan geðhvarfasýkina og allt það. Benedikt er forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins sem tekur upp öll stefnumál samstarfsflokksins, þvert á stefnu eigin flokks. Katrín er forsætisráðherra VG, sem svíkur eigin grasrót og tekur upp stefnu samstarfsflokksins.“

Þetta er forvitnileg greining – en eftir stendur að þá þurfum við að finna einhverja aðra ástæðu fyrir hamskiptum hins raunverulega forsætisráðherra, enda Benedikt farinn að taka fyrstu skrefin inn í maníuna í fyrstu þáttunum, og það virðist ein lykilástæða þess að hann fer ítrekað á móti flokknum. Það, sem og hans eigin persónuleiki, sem augljóslega samræmist flokknum engan veginn.

En hvað segir það okkur, hver er baksagan – hvernig náði hann formannsstólnum til að byrja með? Um það höfum við lítið fengið að vita hingað til, en hér kemur örlítil tilgáta:

Getur verið að Benedikt hafi komið út af geðsjúkrahúsi það ákveðinn í að fúnkera að hann hafi farið alla leið í þeim efnum? Fundið að í kapítalísku samfélagi þá er erfitt fyrir listrænar og hvatvísar sálir að finna sér sinn stað – og þar af leiðandi ákveðið að vera eins fúnkerandi og mögulegt er, giftast í flokkinn og ganga í flokkinn sem stýrir gangverkinu – en vandinn er að þeim betur sem hann fúnkerar, því hærra kemst hann – og á endanum er hann farinn að stýra gangverkinu sjálfur – eða trufla það? Línan þar á milli er óskýr, hann truflar völd gömlu klíkunnar – en svo sjáum við fljótlega hvernig henni mun gangast að öðlast þau aftur.

Svo er líka spurning hvort flokkurinn og kerfið fúnkeri einmitt með því að taka inn geðveikina þegar þess þarf, sætta jafnvel ósamrýmanleg sjónarmið – og láta eins og ekkert sé á yfirborðinu.

Bókmennta- og leiklistarrýnirinn Þorgeir Tryggvason segir þáttinn í raun fjalla um ÍSLENSKA DRAUMINN, með hástöfum, þann draum að „Óháð skoðunum, þekkingu og andlegri heilbrigði getur hver sem er orðið formaður Sjálfstæðisflokksins.“

Árni Bergmann, fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, er á svipuðum slóðum:

„Stundum finnst mér að hann eigi að staðfesta þá skoðun eins af fyrrum ritstjórum Morgunblaðsins að „Sjálfstæðisflokkurinn er hinn eðlilegi vettvangur málamiðlana í þjóðfélaginu“. Möo – í honum komist allskonar viðhorf fyrir sem finna mé hér og þar í pólitísku litrófi.“

Árni hefur hins vegar áhyggjur af því að geðveikin setji þættina af sporinu.

„En svo er það geðveikin sem er orðin svo dapurlega sterk og hrikalega veruleikafirrt að menn setur hljóða. Ég hefi lengi talið að það væri mjög varasamt að láta geðbilun reka áfram sögu – hætt við að höfundar strandi  á nokkrum af mörgum skerjum á þeirri leið.“

Þetta eru réttmætar áhyggjur – þegar Benedikt gerist skyndilega virkilega andstyggilegur undir lok þáttarins er erfitt að sjá hvert við höldum næst; samúðin með honum er orðin algjörlega skilyrt því að við afsökum hann með veikindum hans eftir lokaatriðið.

Mögulega munu aðrir eiga sviðið að mestu í síðustu þáttunum, ef Benedikt verður lagður inn – en því miður hefur þáttunum fatast mjög flugið hingað til þegar hann hefur horfið af sviðinu lengi. Það horfir mögulega aðeins til bóta, eftir að hafa verið litlaus og lítt eftirminnilegur framan af hefur Grímur stigið skemmtilega upp sem machíavelískur plottari – en það er óvíst hvort persóna hans beri heilu þættina sjálfur.

Sjá nánar hér: Íslenski draumurinn: Að fúnkera aðeins of vel

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR