Ásgeir H. Ingólfsson skrifar um heimildamyndina A Song Called Hate (Hatrið) eftir Önnu Hildi Hildibrandsdóttur á vef sinn Menningarsmygl. Myndin var sýnd nýlega á RIFF og einnig á kvikmyndahátíðinni í Varsjá.
Ásgeir skrifar:
Kófið heimtir alla. Meira að segja texta sem samdir voru ári fyrir kóf. Það var ekki nóg með að Hatari hafi spáð fyrir um auknar vinsældir andlitsgrímna og mögulegt fall Evrópu, þegar maður horfir á nýju Hatara-myndina A Song Called Hate þá heyrir maður „kóf“ þar sem einu sinni var tóm.
Tómið heimtir alla
Hatrið mun sigra
Evrópa hrynja
Svona hljómar viðlagið, eins og vögguvísa um 2020 – og ekki síður þessar línur.
Svallið var hömlulaust
Þynnkan er endalaus
Við erum stödd í þynnkunni miðri, sem enginn veit hvað mun endast lengi. Nógu lengi til þess að heimildamyndin um Hatara hefur bara náð örfáum bíósýningum og verið fórnarlamb ótal frestaðra hátíða eins og aðrar bíómyndir okkar tíma.
Þetta er hins vegar mynd sem gæti átt eftir að endast vel – það hefði eiginlega verið betra að sjá fyrstu 20 mínúturnar 20 árum seinna, þetta er söguþráður sem maður þekkir það vel úr fjölmiðlaumfjöllun síðasta árs að maður hugsar með sér að þetta verði miklu magnaðra efni þegar þetta verða orðnar fölnaðar minningar – svo ég tali ekki um útlendinga sem þekkja söguna síður (eða jafnvel alls ekki) eða framtíðarkynslóðir að uppgötva Evróvisjón-ævintýri ársins 2019 í fyrsta sinn.
Það er hins vegar ferðasagan til Ísrael og Palestínu sem er hjartað í myndinni. Vissulega vissum við hvernig sú saga endaði – en þar er bæði allt sem gerist baksviðs óljósara og forvitnilegra, auk þess sem sögusviðið er auðvitað meira framandi.
Ferðasaga bandsins til Palestínu er forvitnileg og þar er Bashir Murad í aðalhlutverki, en hann gaf út lag með Hatara skömmu eftir keppni og í myndinni fáum við að fylgjast aðeins með tilurð lagsins. Samstarfið við hann eykur líka pressuna á sveitina að gera eitthvað á lokakvöldinu, gera alvöru uppsteit – og þótt maður viti hvernig það endaði þá endurskapast spennan vegna þess – af því það tók Hatara greinilega töluverðan tíma að átta sig á hvernig best væri að mótmæla, í jafn miðstýrðu umhverfi og þessi risastóra söngvakeppni er. Stuttu fyrir keppni eru þeir til dæmis kallaðir á teppið til Jon Ola Sand Evróvisjónstjóra, sem Matthías líkir við að vera kallaður inná skrifstofu skólastjórans.
Þeir hitta einnig ótal palestínska og ísraelska listamenn og menntamenn. Sveitin er í samstarfi við palestínsku fatahönnuðina í Trashy og eiga gott spjall við palestínska skáldið Ahmad Yacoub og ísraelska leikstjórann Nadav Lapid, en sá síðarnefndi vann Gullbjörninn í Berlín fyrir myndina Samheiti stuttu áður en Hatari vann undankeppnina á Íslandi – en fékk engu að síður kaldar kveðjur frá Ísrael (sem ég rakti nánar í þessari grein um Hatarakynslóðina).
Bæði Lapid og Yacoub átta sig á að spjótin standa á Hatara úr báðum áttum; Ísraelar vilja engan uppsteit og Palestínumenn og stuðningsmenn þeirra nánast krefjast mótmæla (ef þeir á annað borð fyrirgefa þeim að taka þátt), jafnvel ef það virðist nánast ómögulegt. En skilaboð þeirra beggja eru hins vegar svipuð; einmitt það er frábær staða fyrir listamenn, að hafa alla upp á móti sér, fyrirfram. Og þarna tala menn með reynslu, reynslu af því að vinna í þessu erfiða umhverfi – sem hefur engu að síður einmitt alið af sér ansi magnaða listamenn beggja vegna víglínunnar.
Hinar óþekktu hetjur
Heima á Íslandi lýsir listamaðurinn Ragnar Kjartansson því hvernig þeir hafi einfaldlega orðið að fara – þetta væri einfaldlega of spennandi tækifæri. Ragnar hefur líkt og Hatari hefur starfað bæði sem tónlistarmaður og gjörningalistamaður og hann er í raun listfræðingur myndarinnar, frásagnartrikk sem ég hefði ekki búist við að myndi virka en gerir það hins vegar. Einn helsti veikleiki myndarinnar eru hins vegar nokkur innslög með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, innslög sem gera ekkert fyrir myndina og geta seint talist í anda sveitarinnar.
Á meðan á öllu þessu stendur sjáum við Jon Ola Sand oft álengdar sem stranga skólastjórann og Felix Bergsson sem virkar eins og strangur leikfimikennari í jogginggallanum – en báðir eru samt alltaf fjarlægir, fyrir utan örstutt spjall við Sand, það hefði verið dálítið gaman að fá aðeins fjölbreyttari raddir í myndina – þeir sem fá rödd í myndinni eru flestir á bandi Hatara, fyrir utan stutt innslag með Omar Barghouti hjá palestínsku sniðgönguhreyfingunni BDS.
Maður hefur raunar áhyggjur af því í upphafi að myndin verði, eins og svo margar myndir um starfandi hljómsveitir, aðeins of stýrð af sveitinni sjálfri. Það getur nefnilega kostað sitt fyrir heimildamyndagerðarmenn að fá óheftan aðgang. En það bjargast, kannski út af því þeir fara út í aðstæður sem þeir hafa í raun mjög takmarkaða stjórn á. Myndin um Hatara sem hljómsveit er í raun önnur mynd – og væri gaman að sjá síðar. Það er í raun lítið sem ekkert um áherslur þeirra á and-kapítalisma eða fagurfræði BDSM og þótt við fáum smá tilfinningu fyrir Matthíasi og Klemens sem æskuvinum er í raun ekki farið djúpt í samband þeirra. Á móti kemur að ýmsir hjálparkokkar sem hingað til hafa verið mest í bakgrunninum stíga fram og eiga sín augnablik, sérstaklega eiga dansararnir Adrean og Sólbjört og búningahönnuðurinn Karen eftirminnilegar senur.
Spennan byggist svo upp fram að úrslitakvöldinu – og rétt áður en þeir stíga á svið segir Matthías að þetta sé augnablik sem skeri tímann í tvennt. Og þetta verður einmitt önnur mynd eftir að palestínski fáninn fer á loft. Vel unnin hljóðrás á sinn þátt í því, skyndilega er ógnin raunveruleg, skyndilega er komið að úrslitastundu – en eftir hana veit sveitin þó ekkert hver úrslitin séu, þau eru nefnilega í allt annarri keppni en allir hinir.
Eftirminnilegustu augnablik myndarinnar eru svo í kjölfarið og þau eiga tvær óþekktar konur, grísk blaðakona og hún Manar frá Betlehem, sem þakka Hatara fyrir á einlægan hátt sem sýnir betur en nokkuð annað hvers virði þessi 5 sekúndna mótmæli þeirra voru.
Loks endar myndin með börnum Hatara, íslensku leikskóla- og grunnskólabörnunum sem voru fljót að tileinka sér fagurfræði og allavega að einhverju leyti skilaboð sveitarinnar. Þessi sömu börn og sumir fullyrtu að myndu kosta Hatara sigurinn í símakosningunni alræmdu. Sem skilur mann eftir með spurninguna hvort áhrif Hatara muni gæta lengur en mann grunar, hver svo sem framtíð bandsins kann að vera.
Sjá nánar hér: Augnablik sem sker tímann í tvennt