[Stiklur] HÚSMÆÐRASKÓLINN og Á MÓTI STRAUMNUM sýndar í Bíó Paradís

Rammi úr Á móti straumnum (Ljós­mynd: Isley).

Þrjár nýjar íslenskar heimildamyndir eru nú í almennum sýningum eftir frumsýningu á RIFF. Þetta eru Þriðji póllinn eftir Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason, Húsmæðaskólinn eftir Stefaníu Thors og Á móti straumnum eftir Óskar Pál Sveinsson.

Þegar hefur verið fjallað um Þriðja pólinn á Klapptré.

Húsmæðraskólinn fjallar um hinn horfna heim íslensku húsmóðurinnar og hvernig hlutverk skólans hefur breyst í áranna rás. Í myndinni er gamli tíminn endurspeglaður með viðtölum við eldri nemendur skólans og með dýrmætum gömlum myndskeiðum sem sýna hversu mikilvægu hlutverki hann gegndi fyrir verðandi íslenskar húsmæður um miðbik síðustu aldar. Samhliða er fylgst með nemendum við skólann frá árinu 2016 og hversu mikil breyting hefur orðið á ímynd skólans. Vangaveltur um hlutverk húsmæðraskóla í dag, bæði hvað varðar gamaldags hlutverk kynjanna og hin dyggu grunngildi t.d. nýtni, viðhald fata, umhverfisvitund og spornun gegn matarsóun svo fátt sé nefnt.

Á móti straumnum er um transkonuna Veigu. Veiga er fyrsta manneskjan til að róa 2.100 kílómetra í kringum Ísland á móti straumnum. Þetta afrek er talið sambærilegt við að klífa fjallið K2. En hennar persónulega ferð er ekki síður merkileg. Hún fæddist fyrir 44 árum síðan sem strákur í sjávarplássi á Vestfjörðum. Veigar giftist og eignast börn en ákveður svo 38 ára að hann geti ekki lengur lifað sem karlmaður og ákveður að fara í kynleiðréttingu. Innri baráttan þangað til var helvíti líkust og Veigar reyndi tvisvar að taka eigið líf.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR