Kvikmyndastefna til 2030 lögð fram

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram Kvikmyndastefnu til ársins 2030, en þetta er í fyrsta sinn sem slík stefna kemur fram. Stefnan inniheldur fimm meginmarkmið sem ætlað er efla íslenskan kvikmyndaiðnað á næstu árum. Meðal annars er kveðið á um eflingu Kvikmyndasjóðs, stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs fyrir sjónvarpsverkefni, háskólamenntun í kvikmyndagerð, bætta miðlun kvikmyndaarfsins, fjölskylduvænna starfsumhverfi, skattaívilnanir og starfslaun höfunda kvikmyndaverka.

Vorið 2019 skipaði Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, verkefnahóp með fulltrúum stjórnvalda og atvinnulífs til að móta heildstæða stefnu fyrir kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu á Íslandi, sem gilda á til ársins 2030. Markmið stefnunnar er að íslensk kvikmyndagerð megi blómstra og dafna á komandi áratug. Henni er ætlað að styrkja íslenska menningu og tungu og sjálfsmynd þjóðarinnar, efla atvinnulífið og stuðla að sterku orðspori Íslands. Verkefnahópnum var falið að semja aðgerðaáætlun á grunni stefnunnar sem næði yfir kvikmyndamenningu, kvikmyndamenntun, þróun og framleiðslu kvikmyndaefnis og alþjóðlega kynningu, meðal annars á Íslandi sem tökustað. Þess var óskað að hópurinn skoðaði sérstaklega stofnana- og stuðningskerfi kvikmyndagerðar með tilliti til einföldunar og eflingar, en jafnframt hvernig kvikmyndagerð gæti stutt við markmið Íslands á sviði sjálfbærni.

Stefnuplaggið má lesa hér.

Hér að neðan má sjá stutt myndband þar sem helstu þættir stefnunnar eru tíndir til.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR