Gunnar Theódór Eggertsson kvikmyndarýnir Lestarinnar fjallar um þrjár heimildamyndir sem sýndar voru á Skjaldborg, Aftur heim?, Hálfan álf og Góða hirðinn.
Gunnar skrifar:
Mikil gróska er í heimildamyndum hér á landi og Skjaldborg barst víst metfjöldi umsókna í ár og því ekki að undra að dagskráin hafi verið þétt og spennandi. Ég sá þrjár myndir yfir helgina, ólíkar að efnistökum en allar eiga það sameiginlegt að vera einlægar og persónulegar á sinn hátt, og mikið lagt í þær af hálfu leikstjóranna, enda geta heimildamyndir tekið mörg ár í vinnslu.
Sú var raunin með þá fyrstu sem ég sá, Aftur heim?, eftir Dögg Mósesdóttur, en hún hefur unnið að myndinni í átta ár og farið í margar áttir með söguefnið, áður en myndin endaði á því formi sem prýddi tjald Paradísar um helgina. Aftur heim? fjallar um heimafæðingar, fæðingarsögur, hlutverk kvenna í barnseignarferlinu og í raun menninguna í kringum fæðingar almennt. Þetta er persónuleg mynd sem kviknaði eftir tilraun leikstjórans til að eiga í heimahúsi og efnið er rammað inn í gegnum hugleiðingar hennar, einkum hvað varðar móður hennar – sem vissi ekkert um fæðingar þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn –og breytt viðhorf til barnsburðar almennt í samfélaginu á síðustu öld. Dögg spyr spurninga eins og hvers vegna börn fái ekki lengur að fylgjast með og veltir fyrir sér hugmyndinni um hetjudáðir kvenna í barneignum og stjórn yfir eigin líkama í fæðingarferlinu.
Töluvert er til af heimildamyndum sem fjalla um fæðingar og ég man eftir að hafa horft á margar slíkar einmitt í tengslum við fæðingu fyrsta barnsins míns, myndir sem sýna viðtöl við alls kyns sérfræðinga og spekúlanta og skoða ólíkar hefðir, allt frá gamaldags heimafæðingum yfir í keisaraskurði á færiböndum, en Dögg tók þá góðu ákvörðun að reyna ekki að gera öllum viðhorfum skil í sinni mynd, heldur einbeita sér að heimafæðingunum sjálfum og fólkinu heima fyrir. Hún sat fyrir svörum að sýningu lokinni og fór í gegnum ýmislegt sem endaði ekki í myndinni, viðtöl og heimsóknir sem voru klipptar úr, jafnvel rannsóknarferðir erlendis, sem hefðu breytt verkinu í eitthvað allt annað, enda hljómaði eins og myndin hafi viljað fara allt aðrar leiðir en leikstjórinn ætlaði sér í upphafi – sem er einmitt eitt það skemmtilegasta við heimildamyndaformið.
Um ósýnilegar hetjur
Þótt hugmyndin hafi byrjað sem ákveðin upphafning á heimafæðingum sem fyrirbæri, þá er tónninn í Aftur heim? þannig að myndin gerir ekki upp á milli aðferða sem henta sumum og öðrum ekki – á endanum fæðist barnið og það er aðalmálið. Þess í stað bindur Dögg efnið saman með persónulegum hugleiðingum, og þótt mér hafi fundist söguröddin stundum hafa mátt taka sér pásur, þá er kraftur myndarinnar fólginn í þeirri svakalegu nánd sem áhorfendur upplifa í fæðingarsenunum sjálfum. Það var magnað að sjá myndina með áhorfendum í bíósal, sem stóðu á öndinni og felldu tár, og lifðu sig inn í þetta frumstæða og fallega fyrirbæri sem fæðingin er.
Myndin þarf ekki á viðtölum úr öðrum áttum að halda, vegna þess að ákveðnar senur minna óbeint á hlutverk sjúkrahússins til dæmis ef eitthvað fer úrskeiðis, eða óttann við að illa fari, sem birtist í allsvakalegri senu þar sem adrenalínið smitast hratt á milli allra viðstaddra, eins og það er orðað í myndinni, og út í áhorfendurna líka. Þegar uppi er staðið er Aftur heim? falleg hugleiðing ekki aðeins um fæðingar sem viðburð í sjálfu sér, heldur um hlutverk mæðra og kvenna sem „ósýnilegar“ hetjur og fyrirmyndir, og þannig séð ákall um að hvort sem fætt sé heima eða ekki, að þá eigi fæðingin að tilheyra fjölskyldulífinu, enda fagnaðarefni og ekki feimnismál.
Höldum þá frá fæðingunni yfir í dauðann og skoðum sigurmyndina Hálfan álf, í leikstjórn Jóns Bjarka Magnússonar, sem hlaut dómnefndarverðlaunin í ár. Þar fylgir leikstjórinn afa sínum eftir, sem undirbýr bæði hundrað ára afmælið sitt og sína eigin jarðarför. Trausti er hugfanginn af álfum og hefur í ellinni enduruppgötvað tengsl við álfaheiminn sem kviknuðu fyrst hjá honum í barnæsku. Hann býr yfir mikilli lífsgleði sem birtist í endalausu söngli, sem á til að fara í taugarnar á eiginkonunni, Huldu, ömmu leikstjórans.
Hefðir hversdagsins
Hálfur álfur er hugljúf og mannleg karakterstúdía um tímamót þar sem afmæli og jarðarför fara saman. Myndin byrjaði sem verkefni í sjónrænni mannfræði hjá leikstjóranum Jóni Bjarka og sá vinkill gefur myndinni aukna dýpt – þetta er ekki bara mynd um afa einhvers, heldur um ákveðna kynslóð og ákveðna menningu sem er hverfandi. Söngurinn sem tengir aðalpersónurnar, hefðir hversdagsins – að opna banana, hræra í hafragraut, hlusta á útvarpið, skrifa innkaupalista – og spjallið, bæði eldri borgaranna á milli og síðan í sviðsetningu Trausta á sjálfum sér frammi fyrir myndavélinni, allt er þetta innsýn í ákveðinn heim sem margir kannast við og er í raun alltumlykjandi, en vill gleymast, og hlýtur ákveðna upphafningu í gegnum heimildamyndaformið.
Söngurinn er sérstaklega stór hluti af myndinni, söngurinn sem sameiningartákn – einn byrjar á lagi og annar tekur undir – mér varð óneitanlega hugsað til afa míns, sem var einnig mikill söngfugl, sérstaklega í góðum félagsskap, rétt eins og margir áhorfendur hafa eflaust tengt Hálfan álf við eitthvað persónulegt sjálfir. Ein sterkasta sena myndarinnar er einmitt þegar Trausti fær tækifæri til að syngja í hópi fólks, eftir að hafa sönglað einn á báti meirihluta myndarinnar. Leikstjórinn heldur sig mestmegnis fjarri og leyfir afa sínum að njóta kastljóssins – amman hefur hins vegar minni áhuga á að sýna sig, en opnar sig, á sinn hátt, einmitt í gegnum sönginn og kveðskapinn. Myndin er dramatísk í eðli sínu, því hún fjallar að stórum hluta um dauðann, en reglulega fyndin og skemmtileg, rétt eins og aðalpersónan sem heldur henni uppi.
Ljóðræn heimsókn
Við ljúkum ferðalaginu um Skjaldborgarhátíðina í bílakirkjugarði í myndinni Góði hirðirinn eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur. Hún býður áhorfendum í heimsókn á land Þorbjörns Steinsgrímssonar, á Garðstöðum við Ísafjarðardjúp, þar sem finna má hátt í 600 bílhræ. Um er að ræða nokkurs konar sneiðmynd af svæðinu, portrett af bæði staðnum og fólkinu sem þar býr, að ógleymdu öllu draslinu, og tónninn er settur með gullfallegum upphafsskotum þar sem vélar og brotajárn blandast saman við náttúruna undir fuglasöng og öðrum umhverfishljóðum sveitarinnar.
Leikstjórinn hefur ekki síður, og jafnvel meiri, áhuga á vélum en fólki, dvelur lengi við hið sérstæða landslag sem myndast í kringum bæinn og virðist vilja gefa áhorfendum tækifæri til að komast sem allra næst því að vera á staðnum, snerta og finna lyktina af bílunum, varahlutunum, blómunum og kaffinu. Í spjalli að sýningu lokinni útskýrði Helga Rakel hinar og þessar hugmyndir sem hún hafði íhugað varðandi framrás myndarinnar, t.d. að leggja áherslu á átök íbúanna á Garðstöðum við nágranna sína, enda ekki allir hrifnir af bílakirkjugarðinum, og jafnvel gera úr því einhvers konar heimildamyndavestra um stríðandi fylkingar í sveitinni, en að endingu ákvað leikstjórinn að fara persónulegri leið að efninu, og í raun túlka sína upplifun af svæðinu frekar en að taka viðtöl og lýsa annarra manna skoðunum. Þar af leiðandi er lítið um tal og viðtöl og áherslan frekar á samspil hins myndræna og hljóðræna.
Helga Rakel opnar heim bílakirkjugarðsins smátt og smátt fyrir áhorfendum, byrjar brotakennt á fyrstu mínútum, og sýnir okkur síðan alltaf aðeins meira, bætir ofan á upplifunina, leiðir okkur í gegnum svæðið, og byggir vandlega upp að yfirgripsmiklu lokaskoti, án þess að hafa fyrir því að útskýra of mikið á leiðinni. Fyrir vikið kynnist maður fólkinu á öðruvísi hátt en í mynd þar sem persónur fá að tala beint við myndavélina – og er ekki einu sinni alltaf alveg viss um hvernig persónurnar tengjast sín á milli – og útkoman er mikil listasmíð, „lifandi póstkort frá afskekktum stað“, eins og segir í lýsingunni, og á heildina litið eftirminnileg og ljóðræn heimsókn í óvenjulegt umhverfi.
Sjá nánar hér: Máttur söngsins, ósýnilegar hetjur og lifandi póstkort