spot_img

Ari Alexander um MISSI: Ég hef alltaf verið að velta dauðanum fyrir mér

Ari Alexander Ergis Magnússon ræðir við Lestina á Rás 1 um kvikmynd sína Missi og segir skilin á milli lífs og dauða óskýr. „Mér finnst það svo fallegt. Þau eru mjög óljós og mér finnst ég sjálfur vera svolítið þar.“

Segir á vef RÚV:

„Við sem erum í þessu. Þetta er ástríða, þetta er fíkn,“ segir Ari Alexander Ergis Magnússon. „Þú hættir ekki. Þú getur ekki hætt. Þegar þú kemst inn í þetta er ekkert eins fallegt og gott og gaman að skapa og að vera að takast á við kvikmynd.“

Nýjasta mynd Ara er myndin Missir sem fjallar um mann á efri árum sem er nýlega orðinn ekkill. Hann ákveður að drekka ösku látinnar eiginkonu sinnar og þegar hann drekkur úr bollanum birtist hún honum. Myndin byggir á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar frá 2010. Með aðalhlutverk fara Þorsteinn Gunnarsson, Sigurður Sigurjónsson og Guðrún Gísladóttir.

Ari ræddi við Lóu Björk í Lestinni á Rás 1 um fæðingu kvikmyndarinnar, handanheima og þegar hann fékk gefins sumarbústað og kveikti í honum.

Guðbergur gat verið grimmur og fallegur

„Guðbergur hefur haft ofsaleg áhrif á mig alveg frá því ég byrjaði að lesa bækur eftir hann sem unglingur,“ segir Ari. „Missir kom út 2010 og ég varð yfir mig hrifinn. Þetta er svo falleg saga,“ segir hann. „Guðbergur gat verið mjög harður en líka ótrúlega fallegur og ljúfur.“

„Hvað myndir þú gera ef ástin þín væri farin?“

„Ég hafði aldrei hugsað um þetta: Hvað myndir þú gera ef ástin þín væri farin,“ segir Ari. „Ég hugsaði: þetta er eitthvað.“

Ari skrifaði sjálfur handritið að kvikmyndinni og leikstýrði henni en var að sjálfsögðu með fullt af mögnuðu fólki sér við hlið við gerð myndarinnar. „Þegar þú ert í þessu fagi, kvikmyndagerð, fer ótrúlegur tími og orka í að fjármagna hlutina sína,“ segir hann. „Þú getur fengið gott fólk með þér og svo tekur þetta ótrúlega langan tíma. En þolinmæði þrautir vinnur allar.“

Áhætta að vera með 84 ára gamlan aðalleikara

„Það að velja Þorstein Gunnarsson sem er 84 ára í aðalhlutverk var stór áskorun af því þetta var langt tökuferli,“ segir Ari. „Það mátti ekkert bjáta á.“ Hann segir framleiðendur hafa verið áhyggjufulla á köflum. „Framleiðendur voru alveg: Ari, hann er gamall. Ég sagði bara: Ég elska manninn.“

Fékk gefins sumarbústað og kveikti í honum

Annað verkefni sem Ari segir framleiðendur hafa slegið varnagla á var að í bók Guðbergs kemur upp bruni í sumarbústað. „Það fyrsta sem framleiðandi horfir í er að þetta sé ekki hægt, þetta sé of dýrt.“ Það tók Ari ekki í mál. „Ég sagði bara: Jú, víst er þetta hægt. Við þurfum að finna rétta húsið.“

Ari og Helga Stefánsdóttir, leikmyndahönnuður, settu inn auglýsingu í Bændablaðið þar sem þau óskuðu eftir sumarbústað sem var að niðurlútum kominn sem fengist á góðu verði. „Við fengum svör frá manni sem heitir Finnur í Hvalfirði sem var með bústað sem hann vildi losna við,“ segir hann. „Við fengum þennan bústað og kveiktum í honum. Það var slökkvilið og lögregla og sjúkrabílar og það gekk allt mjög vel,“ segir Ari. „Það var ótrúlega gaman að vera píróman í einn dag.“

Aðrar hugmyndir um dauðann í samfélagi sjamana í Síberíu

„Ég hef alltaf verið að velta dauðanum fyrir mér,“ segir Ari. „Mamma kemur alla leið frá Síberíu úr skóginum í Norðaustur- Síberíu og þetta hefur litað mig.“ Móðir hans, Alexandra Kjuregej Argunova, og faðir hans, Magnús Jónsson, kynntust í námi í Moskvu í Rússlandi á sjötta áratugnum. „Þá var þetta útópískur draumur um hvað hið raunverulega listalíf væri. Moskva var á þessum tíma logandi heit borg en svo fer að girðast niður um þetta allt saman og þau missa trúna á þessu og flytja heim ‘61.“

Móðir Ara kemur frá Jakótíu og Ari kynntist hugmyndum um dauðann í gegnum hana sem teljast óhefðbundnar í hinum vestræna heimi. „Hún kemur úr samfélagi sjamana,“ segir hann. „Lífssýnin er önnur og lífssýnin á dauðann er: Hvað er dauðinn? Er dauðinn raunverulegur?“ Líkt og í kvikmyndinni Missi eru skilin á milli lífs og dauða óskýr. „Mér finnst það svo fallegt. Þau eru mjög óljós og mér finnst ég sjálfur vera svolítið þar.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR