Heimildamynd Kristínar Andreu Þórðardóttur, Er ást, um ástarsamband Helenu Jónsdóttur og Þorvalds Þorsteinssonar og vinnu Helenu við að koma listrænni arfleifð Þorvalds í örugga höfn og halda áfram eftir ótímabært andlát hans, verður sýnd á Skjaldborgarhátíðinni í kvöld. Fréttablaðið ræddi við hana um myndina.
Úr viðtalinu:
Þetta er alveg búið að vera dýrmætt ferðalag. Í fimm ár,“ segir Kristín Andrea Þórðardóttir um heimildarmynd sína Er ást, sem hún frumsýnir á Skjaldborgarhátíðinni í Bíó Paradís í dag.
Myndin fjallar um sterka ást Helenu Jónsdóttur kvikmyndaleikstjóra og Þorvalds Þorsteinssonar, skálds og myndlistarmanns, sem jafnvel dauðinn fær ekki aðskilið, en í myndinni fylgir Kristín Andrea Helenu þegar hún leitar að styrk til að halda áfram með líf sitt og listsköpun samhliða því að koma arfleifð Þorvaldar í örugga höfn, eftir ótímabært andlát hans 2013.
„Ég kynntist Þorvaldi í byrjun árs 2007 og við vorum góðir vinir,“ segir Kristín Andrea, sem síðan kynntist Helenu í gegnum Þorvald og eftir andlát hans og vinnuna við myndina er vinátta þeirra orðin svo náin að Kristín segist hiklaust líta á þær sem fjölskyldu.
Saga um sorg og ást
Helena og Þorvaldur höfðu búið í Antwerpen í Hollandi í um það bil eitt og hálft ár þegar Þorvaldur lést í febrúar 2013. „Það hefur verið mikið ferli að koma skipulagi á dánarbúið og arfleifð hans á svo rosalega mörgum sviðum. Það eru leikverk, myndlist og bókverk. Það er tónlist og ótal textar og hugmyndafræði í skapandi skrifum og menntamálum.
Hugmyndin var að fylgjast með henni koma öllu í örugga höfn á mismunandi vígstöðvum og fara með henni í gegnum sorgarferlið meðfram því,“ segir Kristín og bætir við að undirliggjandi sagan sé svo hin sterka ástarsaga Þorvaldar og Helenu. „Þetta er mjög persónuleg mynd og Helena hleypir áhorfandanum mjög nærri sér. Þessi persónulegu efnistök voru mjög krefjandi fyrir Kristínu í hennar fyrsta leikstjórnarverkefni, eftir að hafa verið kvikmyndaframleiðandi um árabil.
Helena kom af og til heim til Íslands eftir að Þorvaldur lést en Kristín segir þær heimsóknir hafa verið henni erfiðar. „Þannig að hún var kannski ekkert að stoppa lengur en hún þurfti. Helena hefur kennt leikstjórn með hreyfimiðaða nálgun við Listaháskólann um árabil og þetta voru yfirleitt styttri vinnuferðir tengdar þeirri kennslu.“
Hugljómun í ljósabúri
Kristín Andrea segir þær Helenu hafa eytt talsverðum tíma saman í þessum stuttu ferðum og það var í einni slíkri, rúmlega tveimur árum eftir að Þorvaldur lést, sem hugmyndin að heimildarmyndinni kviknaði hjá henni, á Listahátíð 2015.
Þá var opnuð myndlistarsýning á verkum Þorvaldar í Hverfisgalleríi og að kvöldi þess dags voru haldnir tónleikar í Gamla Bíói með lögum úr Ósómaljóðum, lagabálki sem Þorvaldur samdi á námsárunum í Hollandi í kringum 1990.
Kristín var Helenu til halds og trausts á tónleikunum, þar sem hún sá um sjónræna þáttinn.
„Ég var með henni uppi í ljósabúri og það var þarna sem hugmyndin kom, þegar það rann upp fyrir mér hversu mikil ábyrgð er skilin eftir hjá eftirlifandi maka listamanns sem hefur skilið jafn mikið eftir sig og Þorvaldur gerði á svo mörgum sviðum.
Svo að það er ekki bara sorgin og allt sem þarf að huga að eftir andlát einhvers nákomins, heldur fylgir því sú aukna ábyrgð að halda arfleifðinni og nafni listamannsins á lofti.
Yfir mörk lífs og dauða
Þorvaldur snerti við svo mörgum á lífsleiðinni og mörgum finnst þeir eiga hlut í honum og hann heldur áfram að hafa áhrif á fólk um ókomin ár. Líf og dauði eru landamæralaus að þessu leyti.“
Myndin dregur upp svipmyndir af tveimur listamönnum á meðan hún segir sögu ástar, sorgar og sorgarúrvinnslu, þar sem Kristín notast mikið til við ómetanlegt safn efnis úr einkasafni Helenu.
„Ég leitaði víða fanga en það er einmitt þetta persónulega myndefni sem er svo dýrmætt. Það minnir mann líka á að fanga hversdagsleg augnablik með sínum nánustu. Því þó þau þyki ekki endilega dýrmæt þegar þau eru tekin þá geta þau orðið það löngu seinna, þegar þau geta hafa öðlast aukið tilfinningalegt gildi.“
Kosmískir kraftar
Það var ekki til að auðvelda Kristínu efnisöflunina að þegar Þorvaldur og Helena fluttu til Antwerpen 2011 dreifðist búslóð þeirra á nokkra staði.
„Ég vissi af tilvist ákveðins myndefnis sem við vorum búin að leita að alveg ótal sinnum í geymslum hérna á Íslandi, heima hjá móður hennar og eins úti í Antwerpen, og bara fundum þetta ekki.
Ég var um það bil búin að gefast upp þegar þetta kom svo í ljós, lengst inni í skáp heima hjá móður hennar. Þetta var lítil DV-spóla sem hafði dottið á bak við þil, en það var síðla sumars í fyrra sem efnið kemur í ljós. Þá fannst mér við getað farið að huga að því að læsa klippinu.
Ég held að kosmósið hafi aðeins verið að vinna með mér þarna,“ segir Kristín Andrea, sem er loksins komin í höfn eftir fimm ára ferðalag með þessa mjög svo persónulegu mynd.
„Ég er svo þakklát öllum þeim sem hafa lagt krafta sína í þetta verkefni,“ segir leikstjórinn og nefnir sérstaklega kvikmyndatökumanninn Bjarna Felix Bjarnason, klipparann Sighvat Ómar Kristinsson, Úlf Eldjárn, sem samdi tónlistina, og hljóðhönnuðinn Kjartan Kjartansson „Umfram allt hefur þetta ferðalag með Helenu verið mér ómetanleg reynsla, en hennar helsti hvati til að taka þátt í þessu verkefni var að opna umræðuna um sorgina, því það eru ekki svo mörg verkfæri sem syrgjendur geta gripið í á leið sinni um þennan erfiða dal, Íslendingar hafa verið fremur gjarnir á að bíta á jaxlinn, setja hausinn undir sig og knýja sig áfram, en ég held að við verðum að fara að gefa okkur pláss til að vera flóknari tilfinningaverur en svo.“
Sjá nánar hér: Sterk ást lifir í auðugu dánarbúi hugverkanna