Hrönn Sveinsdóttir um Bíó Paradís: Get ekki beðið eftir að opna aftur

Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradísar (Mynd: Eggert Þór Gunnarsson/RÚV).

„Við kunnum okkur ekki læti,“ segir Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíó Paradísar í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar 2. Í gær var tilkynnt að kvikmyndahúsið yrði opnað aftur í september.

Á vef RÚV segir:

„Ég er bara ennþá að bíða eftir að vakna,“ segir Hrönn greinilega ennþá í geðshræringu yfir fréttunum. Hún hafi í marga mánuði reynt að ná samkomulagi sem allir gætu sætt sig við. „Það þurftu allir að koma saman, eigendur hússins, ríkið og borgin. Allir voru sammála um að þeir vildu Bíó Paradís áfram og við þurftum bara að finna út hvernig, en það tókst að lokum.“ Það kostaði þrotlausa vinnu. „Ég tók aldrei COVID-tímabilið í náttfötum með Netflix. Ég var bara löðursveitt á skrifstofunni að finna út úr málum og á Zoom-fundum. Þetta er búið að vera rosaleg eyðimerkurganga.“

Hrönn segir að lítið breytist í rekstrinum sjálfum. „Við höfum alltaf rekið bíóið að mestu leyti fyrir sjálfsaflafé, um 16% af tekjum voru styrkir. Það hefur verið erfitt en við höfum látið það ganga upp og stækkað kúnnahópinn. Nú þyngist reksturinn en sem betur fer höfum við náð ágætis samningum við eigendur hússins, þeir gáfu heilmikið eftir. Og með hækkuðum rekstrarstyrkjum getum við látið þetta ganga upp. Þannig að framtíðin er bara mjög björt.“ Þá tókst líka samkomulag um viðhald á húsinu og Hrönn segist ekki geta beðið eftir að opna aftur í haust. Það er stefnt að því að opna dyrnar aftur fyrir 15. september þegar Bíó paradís á 10 ára afmæli. „Það að byggja kvikmyndahús og vettvang fyrir kvikmyndamenningu er stórkostlegt og mjög margir hafa komið þar að, þannig við ætlum að halda heljarinnar veislu þegar við opnum. Og það er öllum boðið!“

Sjá nánar hér: Tók aldrei COVID-tímabilið í náttfötunum með Netflix

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR