Alls bárust 67 umsóknir til sérstaks átaksverkefnis Kvikmyndasjóðs vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og alls var sótt um 904.098.288 kr. Umsóknarfresti lauk 10. maí, en gert er ráð fyrir að úthlutun verði lokið fyrir 1. júní.
Til samanburðar bárust á árinu 2019 alls 180 umsóknir í Kvikmyndasjóð vegna 147 verkefna.
Samkvæmt þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingaátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar kórónaveiru hlaut Kvikmyndasjóður 120 m.kr. fjárveitingu til að styrkja verkefni er falla að fjárfestingarátakinu.
Hægt var að sækja um þrjá styrktarflokka sem hluta af átaksverkefninu en það voru sérstakir þróunarstyrkir, framleiðslustyrkir og kynningarstyrkir.