Netflix verkefni í tökum á Íslandi og í Suður Kóreu

Á meðan tökur liggja niðri um allan heim vegna Covid-19 faraldursins er það ekki tilfellið á Íslandi og í S-Kóreu þar sem Netflix er með verkefni í gangi.

Þetta kemur fram á Deadline og þar er haft eftir Ted Sarandos hjá Netflix að fyrirtækið hyggist nota þá reynslu sem fengist hefur í þessum löndum til að byggja upp frekari verkefni um heim allan þegar frá líður.

Í frétt Deadline kemur ekki fram hvaða verkefni er um að ræða, en nokkuð ljóst er að á Íslandi er það þáttaröðin Katla sem Rvk Studios framleiðir undir stjórn Baltasars Kormáks. Klapptré hefur heimildir fyrir því að tökur á verkinu standi nú yfir í Gufunesi, en ekki hefur náðst í forsvarsmenn Rvk Studios til að staðfesta það.

Deadline hefur einnig eftir Sarandos að þessi tvö lönd hafi lagt mikla áherslu á skimanir og smitrakningu og á því megi byggja þegar kemur að frekari tökum á verkefnum Netflix annarsstaðar.

Sarandos segir einnig að framleiðsla Netflix verkefna geti ekki hafist á ný án skipulagðra skimana. „Við verðum að vera fær um að horfast í augu við starfsfólk okkar og segja því að hér sé öruggt að vinna.“

Sjá nánar hér: Netflix Is In Production In South Korea And Iceland And Will Use What It’s Learning There In Other Markets

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR