Sú merka heimildaþáttaröð Verstöðin Ísland (1991) eftir Erlend Sveinsson, Sigurð Sverri Pálsson og Þórarinn Guðnason, er nú aðgengileg frítt á Vimeo og má nálgast hér.
Þáttaröðin lýsir sögu sjávarútvegs á Íslandi frá fornu fari fram til nútímans, en stærstur fókus er á tuttugustu öldinni. Óhætt er að segja verkið einhverja umfangsmestu þáttaröð sem gerð hefur verið á Íslandi. Hún var sýnd í Háskólabíói á sínum tíma og síðar gefin út á VHS. Sjónvarpið (nú kallað RÚV) sýndi hana í kjölfarið en verkið hefur lengi verið ófáanlegt.
Erlendur Sveinsson fjallar um þetta á Facebook síðu sinni og segir:
Á þessum erfiðu tímum sem við erum að ganga í gegnum sem samfélag langar mig til þess að vekja athygli FB vina minna á því að myndaflokkur minn og samstarfsfélaga minna, Verstöðin Ísland 1 – 4, er nú aðgengilegur á netinu ókeypis. Ég sagði frá því hér fyrir fáeinum árum að við Sigurður Sverrir Pálsson, kvikmyndatökumaður myndaflokksins og samstarfsfélagi værum að gera flokkinn upp með nýrri skönnun, litgreiningu, hljóðyfirfærslu o.s.frv. [það er þessi endurunna útgáfa sem er til sýnis nú, innskot Klapptrés]. Senn verður ensk útgáfa tilbúin líka.
Nú þegar við erum öll með hugann við hremmingarnar sem samfélag okkar og heimurinn allur er að ganga í gegnum, dettur mér í hug að það geti verið ákveðinn upplyfting að gleyma sér um stund og leiða hugann að rótum okkar samfélags og hvernig þjóðarbúið íslenska hefur ætíð sveiflast efnahagslega frá toppi til táar en alltaf rétt úr kútnum. Ég trúi því að þessi faraldur, sem vill slá okkur niður, núna sé að segja okkur eitthvað mjög merkilegt sem í aðalatriðum er það að við jarðarbúar eru ein fjölskylda í einu stóru landi sem nefnist Móðir Jörð, fjölskylda sem þarf að uppræta sundurlyndi og innbyrðis átök til þess að lifa af, já til þess að sköpun okkar misheppnist ekki.
Ef ykkur finnst Verstöðin þess virði að horfa á um stund við þessar aðstæður þá deilið tenglunum endilega sem víðast. Það er hægt að skoða verkið í tölvum, spjaldtölvum og símum, en best væri að tengja tölvu við sjónvarp með HDMI snúru til að nýta þau fínu sjónvörp sem eru víða til á heimilum. Myndin var jú upphaflega sýnd af filmu í Háskólabíói. Þá var öldin önnur og hafði annan róm. Góða skemmtun.
1. hluti: Frá árum til véla spannar sjávarútvegssögu Íslendinga frá öndverðu og fram að fullveldi Íslands árið 1918. Lýst er þróuninni frá árabátum og þilskipum yfir í vélvæddan sjávarútveg þar sem vélbátar tóku við af áraskipum og togarar af þilskipum og áhrifum þessara breytinga á samfélagið. Aðrir áhrifaþættir koma einnig við sögu eins og heimsstyrjöldin fyrri og erlendir fiskmarkaðir.
2. hluti: Bygging nýs Íslands lýsir þróun íslensks sjávarútvegs á tímabilinu 1920 til 1950. Togaraflotinn er endurnýjaður í tvígang og þjóðin gengur í gegnum uppsveiflu, kreppu og heimsstyrjöld þar sem sjávarútvegurinn gegnir mikilvægu hlutverki í sögu uppbyggingar nýs Íslands.
3. hluti: Baráttan um fiskinn lýsir þróun og áhrifum íslensks sjávarútvegs á þjóðlífið á árunum 1950 til 1990. Í baráttu sinni um fiskinn á þessum tíma þurfti þjóðin að heyja fjögur landhelgisstríð.
4. hluti: Ár í útgerð lýsir einum árshring í útgerð og fiskveiðum á Íslandi undir lok níunda áratugarins. Í aðalhlutverkum eru vertíðarbáturinn Suðurey, áhöfn hans og útgerðarmaður og togarinn Breki ásamt áhöfn og útgerðarmanni.