Aldrei fyrr hafa norrænir ríkisfjölmiðlar í almannaþjónustu framleitt jafn mikið af leiknu efni í sameiningu og árið 2019. Að meðaltali var frumsýnd ný leikin þáttaröð fyrir fullorðna í hverjum mánuði og nýjum leiknum þáttaröðum fyrir börn og unglinga fjölgaði einnig verulega.
Þetta kemur fram á vef RÚV sem vitnar í ársskýrslu Nordvision, en þessi þróun verður einnig rædd á Bransadögum Stockfish hátíðarinnar:
Niðurstaða ársskýrslu Nordvision, samstarfsvettvangs norrænna ríkisfjölmiðla í almannaþjónustu, var birt á dögunum. Þar kemur fram að árið 2019 hafi sjónvarpsáhorfendur á Norðurlöndum haft aðgang að meira úrvali leikins sjónvarpsefnis en nokkru sinni fyrr. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nordvision.
Á síðastliðnu ári voru frumsýndar tólf leiknar þáttaraðir í Nordvision-löndunum fimm, innan ramma Nordic12-samstarfsins svokallaða sem skuldbindur ríkisreknu almannaþjónustumiðlana fimm til að framleiða samtals 12 þáttaraðir á hverju ári og gera þær aðgengilegar í streymisþjónustu í að minnsta kosti eitt ár eftir frumsýningu. Þetta á til dæmis við um þáttaraðirnar Heimavöllur 2 frá NRK, Sveitasæla frá DR, Pabbahelgar frá RÚV og Systur 1968 frá SVT.
Árið 2020 verða 12 nýjar þáttaraðir frumsýndar, þar á meðal 22. júlí frá NRK, nýja spennuþáttaröðin Paradís frá finnska YLE, Dejta frá SVT sem frumsýnd verður í Svíþjóð í lok febrúar 2020, Ráðherrann frá RÚV og Þegar rykið sest frá DR.
„Um árabil hefur leikið sjónvarpsefni frá norrænu almannaþjónustumiðlunum notið mikillar hylli á alþjóðavísu og unnið til fjölda verðlauna. Með skuldbindandi, stefnumótandi samstarfi tryggjum við að Norðurlandabúar geti speglað sig í öllu því sem er sameiginlegt eða ólíkt í norrænni menningu og bjóðum þannig upp á valkost við það mikla framboð erlends sjónvarpsefnis sem í boði er. Og þannig mun það verða í mörg ár til viðbótar,“ segir Øyvind Lund, stjórnarformaður Nordvision og framkvæmdastjóri miðla hjá NRK.
Ungir sjónvarpsáhorfendur hafa sömuleiðis getað valið á milli 12 leikinna þáttaraða auk fimm heimildarþáttaraða. Samkvæmt skýrslu Nordvision er það aukning, því til samanburðar hafi samstarfið aðeins getið af sér tvær leiknar þáttaraðir fyrir ungmenni árið 2017.
„Það er ekkert leyndarmál að sjónvarpsstöðvarnar í Nordvision-samstarfinu hafa löngum átt erfitt með að ná til ungs fólks. Það er lítill vafi á því að það var mikil velgengni unglingaþáttanna SKAM frá NRK sem sýndi okkur öllum fram á að það væri hægt að fá ungt fólk til að horfa á ríkisreknu sjónvarpsstöðvarnar – og streymisþjónustur þeirra,“ segir Henrik Hartmann, framkvæmdastjóri Nordvision, sem spáir því að þróunin haldi áfram á sömu braut þar sem 17 nýjar þáttaraðir fyrir unglinga séu þegar á teikniborðinu árið 2020.
Sjá nánar hér: Metár í framleiðslu leikins sjónvarpsefnis