Útsendari Lestarinnar, Ásgeir H. Ingólfsson, flytur fregnir af kvikmyndahátíðinni Berlinale þar sem hann sá meðal annars Last and First Men eftir Jóhann Jóhannsson.
Ásgeir segir:
„Að fara til Íslands áður en ég dey. Og að leika Hamlet.“ Þetta eru hinstu óskir Sven, þýsks leikara í myndinni Litla systir, Schwesterlein, sem sýnd var í aðalkeppninni á kvikmyndahátíðinni í Berlín, Berlinale. En við vitum að Sven er með hvítblæði á lokastigi, hvorug óskin er líkleg til að rætast úr þessu. Það er hins vegar ein íslensk bíómynd á hátíðinni – en þar förum við samt aldrei til Íslands, heldur til Balkansskagans. Til hinnar gömlu Júgóslavíu Títós, en um leið langt, langt inní framtíðina.
„Hlustið af þolinmæði,“ biður Tilda Swinton okkur. Hún talar til okkar úr framtíðinni, þar sem loftslagsbreytingar handan okkar skilnings eru við það að tortíma jörðinni. En hún talar líka til okkar úr fortíðinni, í gegnum rithöfundinn og heimspekinginn Olaf Stapledon, sem gaf fyrir 90 árum út hnausþykka Hegelíska framtíðarskáldsögu, The Last and First Men. Hún fjallar meðal annars um loftslagshamfarir, löngu áður en þær urðu vinsælt umræðuefni, og íslenska tónskáldið Jóhann Jóhannsson átti löngu seinna eftir að aðlaga síðustu kafla bókarinnar í handritið sem hún Tilda Swinton las upp fyrir okkur úr hérna á undan.
Þetta var fyrsta, og því miður eina, myndin í fullri lengd sem Jóhann heitinn leikstýrði, áður hafði hann leikstýrt stuttmyndinni End of Summer, sem eins og þessi var svart-hvít og rétt eins og í þessari sáust þar engar manneskjur, en þónokkrar mörgæsir hins vegar, enda myndin tekin upp á Suðurskautslandinu að mestu.
Hlustið af þolinmæði
Myndin nýja er á óræðan hátt kveðjubréf að handan, frá Olaf og Jóhanni, sem og afkomendum okkar úr fjarlægri framtíð. En aftur að Tildu. Hún er þrátt fyrir allt nokkuð bjartsýn. Hún talar nefnilega til okkar úr mjög fjarlægri framtíð, þúsundum milljónum ára inní framtíðina. Miðað við flestar spár um loftslagsbreytingar hljómar nú bara ansi vel ef við eigum eftir að endast það lengi. En að því sögðu þá minnist hún á einum stað á það að við sem tegund höfum upplifað svona um það bil allt sem hægt er að upplifa á þeim tíma, allar hæðir og allar lægðir, þar á meðal, mögulega, að verða nánast útdauð og þurfa að byrja upp á nýtt. Jafnvel aftur og aftur.
En dveljum ekki lengur við Tildu, skoðum frekar þessa myndramma sem hún talar yfir. Þetta er steinsteypa í svart-hvítu, ægifögur og brútalísk minnismerki sem Josip Tito lét reisa víðsvegar um gömlu Júgóslavíu, mörg hver á afskaplega afskektum og fáförnum stöðum.
Hann fékk marga færustu myndhöggvara landsins til þess að hanna merkin og þau eru byggð í minningu heimstyrjaldarinnar síðari, í minningu fórnarlamba, í minninga sigra sem og sorga. Þau kallast spomenik, sem þýðir einfaldlega minnismerki á serbó-króatísku. Þessi minnismerki gælir myndavél Sturlu Brandth Grøvlen við, henni tekst á sinn hátt að gæða þau lífi í samspili við texta Stapledon, sum þeirra taka á sig mennsk form, önnur taka á sig óræð form geimskipa eða framtíðarbygginga, jafnvel form kynjaskepna þeirra sem mannkynið mun dag einn þróast út í, þegar Homo sapiens verður aðeins bergmál úr fortíðinni, frumgerð þeirra vera sem þá munu ríkja yfir deyjandi plánetu. Með því að nálgast þau að hægð, leyfa myndavélinni að fylgjast með þeim, stundum löturhægt, einmitt þannig öðlast þau líf. „Hlustið af þolinmæði,“ biður Tilda okkur – en myndavélin færir okkur ekki síður mikilvægt verkefni: horfið af þolinmæði.
Þegar ég settist tók ég eftir því að Vladan Petkovic sat fyrir framan mig. Hann er einn helsti kvikmyndagagnrýnandi Balkanskagans, skrifar fyrir Cineuropa og Screen Daily. Og þarna rétt fyrir mynd áttaði ég mig á því að auðvitað væri þetta á sinn hátt lókal mynd fyrir þau líka, þetta væri dálítið eins og útlendingar myndu vera að gera mynd um Þingvelli. Tító og myndhöggvararnir hans bjuggu í raun til leikbrúðurnar sem Jóhann leikur sér hér með.
Það voru pallborðsumræður að mynd lokinni, og í fjarveru leikstjórans látna sátu þar þeir Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi, Sturla Brandth Grøvlen, kvikmyndatökumaður, Mark Bukdahl, klippari, og Yair Elazar Glotman, sem ásamt Jóhanni er skráður fyrir tónlistinni.
Sessunautur Vladans tók fyrstur til máls og spurði hvort ekki hefði verið rétt að geta höfunda minnismerkjanna í kreditlistanum. Fleiri spurningar komu úr sal, og um helmingur þessa eðlis, íbúar gömlu Júgóslavíu að velta fyrir sér merkingu minnismerkjanna í myndinni. Hvort hún væri eingöngu fagurfræðileg eða hvort saga þeirra hefði verið höfð til hliðsjónar. Þórir og Sturla svöruðu þessu prýðilega, en gátu þó ekki svarað nema að hluta, hugmyndin var Jóhanns og handritið sömuleiðis, hann hafði hugsað sig í gegnum það hvernig minnismerkin myndu eiga í samtali við texta Stapledons, en nákvæmlega hvernig sú hugsun var og hvernig hún skiptis í fagurfræði og sagnfræði gátu þeir eðlilega ekki svarað, aðeins getið sér til um ástæðurnar.
Hin mörgu andlit hrollvekjuhöfundarins
Myndin hefur síðan fengið nánast einróma lof gagnrýnanda, þar á meðal frá áðurnefndum Vladan Petkovic á Cineuropa, sem lýsir því að þótt sagan sé ekki beintengd uppruna þeirra geti áhorfendur búið sér til sínar eigin tengingar, eins og það hvernig manneskjur framtíðarinnar hafi lært að hafa áhrif á fortíðina, sem minni á hvernig nútími allra þeirra ríkja sem tóku við kefli Júgóslavíu hafa endurskrifað sögu þessara minnismerkja í kjölfar stríðsins. Loks minnist hann á að myndin fái mann til að endurmeta merkingu minnismerkjanna, bæði þegar þau voru upprunalega reist og sömuleiðis merkingu þeirra þegar landið sem þau hylltu tortímdist og varð að ótal minni löndum í kjölfar blóðugrar borgarastyrjaldar.
En best að kíkja aðeins út úr salnum, yfir á næstu mynd. Þær voru auðvitað ótal margar, en látum duga að minnast á þær allra bestu. Mynd Jóhanns er þar sannarlega á meðal – og kvikmyndatökumaðurinn Sturla Brandth Grøvlen mun hafa borið hitann og þungan að því að sigla henni í örugga höfn eftir andlát Jóhanns, ásamt framleiðandanum Þóri Snæ. Sturla er norskur tökumaður sem einnig tók upp Hrúta og Hjartastein en er líklega þekktastur fyrir Berlínar-óðinn Victoriu, mynd sem er tekinn upp í aðeins einni töku og byrjar á djamminu í Berlín og endar á blóðugu bankaráni.
Hann er líka tökumaður á annari af bestu myndum hátíðarinnar, Shirley, sálfræðitrylli sem að vissu leyti gæti ekki verið fjær mynd Jóhanns í þeim skilningi að þar sést hvergi í mennskt andlit, í Shirley snýst allt um andlitin, sem hann tekur upp, í nærmynd og skekkt og hrist, þegar það á við.
Shirley fjallar um skáldkonuna Shirley Jackson, sem Elisabeth Moss leikur af mikilli innlifun, eiginmann hennar og nýgift hjón sem eru bæði samstarfsaðilar og vinnuhjú. Aðallega fjallar hún þó um ástina og hatrið á milli kvennana tveggja, sem byrja á að hatast en hatrið breytist svo í ansi einkennilegan vinskap.
Þetta er hryllingsmynd án flestra þeirra skilyrða sem við setjum hryllingsmyndum, flest sem hér gerist gerist aðeins í hausnum á okkur og aðalpersónunum, mögulega allt. Enda saga um skáldkonu og erfitt að festa hendur hvað á að kalla hana, ævisöguleg er hún að einhverju leyti en hún er þó kannski frekar eins og ágiskun á ævi út frá efnistökum og þemum bókanna sem hún skrifaði. Þetta er líka hryllingssaga úr hugvísindadeild, þar sem bókmenntafræðingar, rithöfundar og nemendur takast á og það er miklu meira undir en bara túlkun á næstu skræðu.
Kú kapítalismans
Loks er rétt að minnast á allra bestu myndina sem ég sá á hátíðinni. First Cow, hina fyrstu kú. Þetta er vestri, eins og nafnið gefur einmitt ekki til kynna, en mögulega óvenjulegasti vestri sem ég hef séð, vestri um bakara og kínverja. Bakarinn bölvar því að þarna sé aðeins hægt að fá þurrt og ógeðslegt brauð, Kínverjinn bendir honum á að það sé ein kú í þorpinu, hún sé á víðavangi, það mætti jafnvel heimsækja hana að næturlagi og fá nokkra mjólkurdropa.
Það gera þeir og mæta svo daginn eftir með langbesta sætabrauðið á markaðnum og selja fyrir fúlgur fjár. Nema hvað, á endanum mætir auðjöfur bæjarins, eigandi beljunnar, og smakkar. Sælubros færist yfir andlitið og hann segir glaður: „I taste London in this cake!“
Í kjölfarið verður hann þeirra helsti viðskiptavinur – en það er vitaskuld aðeins tímaspursmál hvenær hann kemst að því hvaðan mjólkin kemur. Og á einhvern einkennilegan hátt er þetta einhver lúmskasta táknsaga um kapítalisma og vináttu sem hægt er að hugsa sér.
Þeir Coookie og King Lu, bakarinn og Kínverjinn, eru eldklárir og frmukvöðlar í hjartanu. En það gagnast þeim þegar allt kemur til alls skammt, því þá skortir helsta kost allra almennilegra kapítalísta í þessu frumstæða kapítalíska hagkerfi, þeir hafa það einfaldlega ekki í sér að beita ofbeldi, í heimi sem snýst fyrst og fremst um hnefaréttinn. Vináttan bjargar þeim framan af – en er hún nóg í veröld þar sem byssur og hnefar ráða flestu?
Sjá nánar hér: Kveðjubréf Jóhanns Jóhannssonar á Berlinale