CICAE, alþjóðleg samtök listabíóa, hafa sent frá sér skorinorða stuðningsyfirlýsingu við Bíó Paradís sem hefur tilheyrt þeim félagsskap um árabil. Í yfirlýsingunni segir meðal annars að kvikmyndahús á borð við Bíó Paradís leggi fyrst og fremst áherslu á að þjóna samfélagi sínu en ekki að hámarka ágóða. Nú sé hætta á að bíóið verði fasteignabraski og græðgi að bráð. Jafnframt er minnt á Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem veitt verða í Hörpu í desember næstkomandi og hversu mikilvægt sé að Bíó Paradís verði áfram heimili þeirra kvikmynda sem þar koma við sögu.
Í bréfinu, sem ritað er af forseta CICAE, Dr. Christian Bräuer, segir ennfremur að margir þekktir leikstjórar á alþjóðavísu hefðu ekki getað byggt upp feril sinn án stuðnings listabíóa sem trúðu á listrænt gildi verka þeirra. „Með því að loka eina listræna kvikmyndahúsi landsins er bæði íslenskt kvikmyndagerðarfólk – hvers samtök eiga og reka bíóið – og íslenskir áhorfendur sviptir aðgengi að fjölbreyttri hágæða dagskrá.“
Þá er spurt hvaða annað kvikmyndahús á Íslandi tæki að sér að bjóða uppá slíka dagskrá, þar á meðal kennslu og fræðslu um kvikmyndir sem móta munu næstu kynslóðir kvikmyndagerðarfólks.
Bréfið í heild má lesa hér: Bio-Paradis-call