Eftir að hin margumtalaða Lof mér að falla var frumsýnd fyrir ári upplifði Baldvin Z, leikstjóri myndarinnar, mikinn niðurtúr.
Þetta kemur fram á vef RÚV en rætt var við Baldvin í þættinum Endalaust útvarp. Þar segir meðal annars:
„Ég er ekki að spá í þessum heimi út frá myndinni lengur en ég á vinkonu sem er á þessum stað í dag og ég spái mikið í því,“ segir hann alvarlegur um umfjöllunarefni myndarinnar. Hann bugaðist loks um áramótin, hafði verið að vinna í myndinni nokkuð sleitulaust frá árinu 2012 og eftir sigurför hennar sprakk hún að eigi sögn í andlitið á honum. „Ég þurfti að minna mig á að ég lagði upp með að gera bíómynd sem átti að opna augu fólks. Mig langaði að sýna inn um dyr sem við kíkjum ekki inn um og fá af stað umræðu. Myndin varð að samfélagsskrímsli og allir voru að tala um hana. Þetta átti hins vegar aldrei að vera forvarnarmynd.“
Baldvin varð nefnilega mikið var við það, sér í lagi á samfélagsmiðlum, að þrátt fyrir mikið lof sem myndin fékk var hún líka gagnrýnd, meðal annars af samtökum sem mæltu ekki með því að horft væri á hana, jafnvel frá fólki sem aldrei hafði séð hana sjálft. „Og þegar fólk var að tala um forvarnargildi myndarinnar langaði mig að árétta að þetta er leikin bíómynd og listsköpun.“
Hann var ánægður með afraksturinn en um áramótin þurfti hann hins vegar að skilja sig aðeins frá henni og huga að næstu verkefnum. „Myndin hefur öðlast sjálfstætt líf, hún er búin að ferðast heimsálfa á milli.“
Ætlar aldrei aftur á Facebook
Í vinnslu myndarinnar kom leikstjóranum einna helst á óvart að horftast í augu við sína eigin fordóma. „Ég hef til dæmis oft sagt að alkóhólismi sé enginn sjúkdómur, að fólk þurfi bara að taka sig taki. Það var gott fyrir mig að brjóta niður þessa fordóma í sjálfum mér. Þeir voru ekki opinberir en sátu í mér. Þetta er nefnilega ekki bara sjúkdómur, þetta er stærra vandamál en að poppa eina pillu. Þetta er geðheilbrigðisvandamál og rótin er alltaf sú sama – vanlíðan ungs fólks og brotin sjálfsmynd.“
Baldvin sagði skilið við samfélagsmiðla eftir að hann áttaði sig á því um áramótin að hann þyrfti að hægja á sér. „Ég upplifði mikið svartnætti,“ segir hann. „Svo kom bara vorið og ég fór af samfélagsmiðlum og hætti að fylgjast með. Ég ætla aldrei aftur á Facebook, það er mannskemmandi apparat.“
Um þessar mundir er hann með nokkur verkefni í þróun en segist vera feginn að vera ekki strax byrjaður í tökum. „Ég er enn að pússla mig saman en hlakka til allra verkefnanna sem bíða mín.“
Sjá nánar hér: „Ég upplifði algjört svartnætti“ | RÚV