Morgunblaðið um „Hvítan, hvítan dag“: Æsispennandi, hjartnæm og ískrandi kómísk á köflum

Ingvar E. Sigurðsson og Ída Mekkín Hlynsdóttir í Hvítum, hvítum degi.

„Gerð á sígilda vísu en er jafnframt fersk og frumleg. Hún er æsispennandi en líka hjartnæm og ískrandi kómísk á köflum,“ segir Brynja Hjálmsdóttir meðal annars í Morgunblaðinu um Hvítan, hvítan dag Hlyns Pálmasonar. Hún gefur myndinni fimm stjörnur.

Brynaj skrifar meðal annars:

„MacGuffin“ er frásagnarlegt fyrirbæri sem hefur fyrst og fremst verið tengt við myndir Alfreds Hitchcock. Myndir hans hverfast gjarnan um frekar dæmigert glæpaplott, sem er þá „MacGuffinið“, en glæpaþráðurinn er oftast ekki aðalatriðið í myndinni, heldur er það eitthvað dýpra. Plottið í Hvítum, hvítum degi er frekar borðleggjandi en það kemur ekki að sök því sagan um svikin og lögreglurannsóknina er algjört MacGuffin. Myndin snýst um að afhjúpa aðalpersónuna, fletta honum í sundur lag fyrir lag, uns við komumst inn að nöktum og blæðandi kjarnanum.
Það má líka halda því fram að í myndinni sé reynt að komast inn að kjarna miðilsins, prófa mismunandi leiðir til að nota hann, því þetta snýst meira um hvernig sagan er sögð heldur en söguna sjálfa. Þetta er alvöru bíómynd sem notar alla möguleika miðilsins, hljóð, mynd, tíma og klippingu, til að miðla sögunni og verkið ber þess vitni að Hlynur Pálmason er altalandi á tungumál kvikmyndanna.

Myndin hefur vissan tilraunakenndan vinkil, þótt hér sé ekki gengið jafn langt í tilraunamennskunni og í Vetrarbræðrum. Stundum er staldrað við óhlutbundnar senur sem tengjast söguþræðinum ekki beinlínis en gefa sögunni engu að síður vigt. Ein slík sena er í upphafi myndarinnar þar sem við horfum á húsið hans Ingimundar í nokkrar mínútur. Við sjáum húsið alltaf frá sama sjónarhorni en við mismunandi aðstæður, um vetur, sumar, nótt og dag, og fylgjumst með því hvernig húsið breytist þegar framkvæmdirnar byrja. Táknrænan er augljós, þarna á sér stað þróun, tíminn líður, þetta er lífið sjálft. Þetta verður mjög sláandi þegar við kynnumst svo Ingimundi, sem er augljóslega fastur í sama farinu, sama hvað tímanum líður. Fleiri svona augnablik, eins og þegar við sjáum stein rúlla niður brekku og þegar staldrað er við „barnaefni“ í sjónvarpinu, eru þýðingarmikil og undarleg innslög bæta heilmiklu við myndina. Ég er afskaplega hrifin af þessum útúrdúrum, hér er tekin áhætta og það virkar.

Það sem ég er kannski hvað ánægðust með er að hér er ekki verið að skorða sig of fast við raunsæið. Íslensk kvikmyndahefð er raunsæishefð og það er virkilega hressandi þegar hrist er aðeins upp í því. Myndin gefur tilfinningu fyrir raunsæi en með smá aukaplássi. Við sjáum t.a.m. nokkur skot af sjónvörpum sem sýna umferð um vegina í sveitinni, líkast til eiga þau að sýna myndefni frá einhvers konar öryggismyndavélum. Það liggur milli hluta hvar eða hvort slík öryggismyndavélasjónvörp fyrirfinnist í alvörunni. Ingimundur fer líka reglulega til sálfræðings, sem er hvorki óvenjulegt né óraunsætt, en sálfræðingurinn hans er annaðhvort versti sálfræðingur í heimi eða hann er ekki til í alvörunni. Áhorfandinn fær að ákveða það.

Fagmennska

Ingvar E. Sigurðsson hefur nú þegar unnið til verðlauna bæði á Cannes og í Transylvaníu fyrir túlkun sína á Ingimundi. Hann er frábær leikari sem verður bara betri með árunum og er virkilega góður í hlutverki Ingimundar. Ída Mekkín Hlynsdóttir er algjörlega æðisleg í hlutverki Sölku og ljær persónu sinni afslöppun, gáska og kraft. Einnig langar mig að nefna Þór Tulinius, sem er reglulega skemmtilegur sem furðusálfræðingurinn Georg.

Þótt Hvítur, hvítur dagur eigi sér stað á hefðbundnum íslenskum slóðum er hún einhvern veginn erlend á að líta, nema má áhrif frá dönsku dogma-hreyfingunni, þarna er svolítill Bresson og svolítill Andrei Tarkovskíj. Í Solaris (1972) eftir Tarkovskíj er t.a.m. frægt atriði sem sýnir mann aka bíl og umferð um hraðbrautir. Atriðið líður afar hægt og dregur fram einmanaleika þess að sitja einn í bíl. Svipuðum brögðum er beitt í Hvítum, hvítum degi með mjög góðum árangri. Endurtekið sjáum við Ingimund keyra um sveitina, keyra inn og út úr göngum, inn og út úr ljósinu. Þetta er afskaplega táknrænt, endurtekið erum við send inn í göngin, minnt á að við erum á ferðalagi inn að myrkvuðum kjarna. Ingimundur og Salka heyja svo lokaviðureign við skrímslið í Ingimundi inni í slíkum göngum.

Hlynur er menntaður í Danska kvikmyndaskólanum, sem er einhver virtasti og besti kvikmyndaskóli í heiminum og ekki að ástæðulausu, fólk sem útskrifast þaðan er nánast undantekningalaust mikið hæfileikafólk sem gerir flottar myndir. Áður en hann hóf kvikmyndanám lagði hann stund á myndlist. Það leynir sér ekki að Hlynur er myndlistarmaður, bakgrunnur hans liggur í ljósmyndun og kvikmyndir hans einkennast af frábærri notkun á myndmáli, lýsingu og innrömmun. Ljósmyndarahliðin opinberast sérstaklega í niðurlagi myndarinnar þegar við sjáum portrett af aðalpersónum myndarinnar sem minna á ljósmyndir, þau standa kyrr og horfa í myndavélina. Einnig gerir hún vart við sig í eins konar kyrralífsmyndum af hlutum sem tengjast bílslysinu, skóm á víðavangi, hjólbarða o.fl. Myndin er skotin á filmu, sem telst heljarinnar vesen nú til dags. Mikil ósköp hvað það er samt þess virði, það er dýrt og það er vesen en það er svo miklu, miklu fallegra. Kvikmyndatakan er líka algjörlega óaðfinnanleg.

Ný rödd
Hvítur, hvítur dagur er gerð á sígilda vísu en er jafnframt fersk og frumleg. Hún er æsispennandi en líka hjartnæm og ískrandi kómísk á köflum. Það eina sem er ekki ferskt er að hún fjallar um fullorðinn karl í krísu, minni sem kannski er bara kominn tími á að hvíla svolítið. Það má samt taka fram að myndin glamúrvæðir ekki karlalega tilfinningahörku og þvermóðsku, þvert á móti sýnir hún hvernig hún getur eitrað út frá sér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR