„Agnes Joy“ heimsfrumsýnd á Busan hátíðinni

Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason verða sýndar á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Busan í Suður Kóreu sem fer fram dagana 3.–12. október. Báðar myndirnar munu taka þátt í World Cinema hluta hátíðarinnar.

Agnes Joy verður heimsfrumsýnd á hátíðinni en myndin verður frumsýnd hérlendis þann 17. október.

Myndin fjallar um mæðgurnar Rannveigu og Agnesi sem búa á Akranesi ásamt föður Agnesar, Einari. Rannveig er í tilvistarkreppu, óánægð í starfi sínu fyrir fjölskyldufyrirtækið og hjónabandið komið á algera endastöð. Samband fjölskyldunnar einkennist af stjórnsemi og spennu og Agnes er í uppreisn. Þegar leikarinn Hreinn, flytur í bæinn til þess að vinna að kvikmyndahandriti, heillast þau öll af honum, hver á sinn hátt og þroskasaga mæðgnanna hefst fyrir alvöru.

Silja Hauksdóttir leikstýrir Agnesi Joy og skrifar handritið ásamt Rannveigu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Myndin er framleidd af Birgittu Björnsdóttur og Rannveigu Jónsdóttur fyrir Vintage Pictures og meðframleidd af Mikael Torfasyni og Guðbjörgu Sigurðardóttur. Í aðalhlutverkum eru þau Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Donna Cruz, Þorsteinn Bachmann og Björn Hlynur Haraldsson.

Með sölu erlendis fer pólska sölufyrirtækið Media Move en Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Sjá nánar hér: Agnes Joy og Hvítur, hvítur dagur valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan – Agnes Joy heimsfrumsýnd

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR